Hoppa yfir valmynd

Starfsemi ráðuneytisins á árinu 2022

Ársskýrsla utanríkisráðherra byggist á fyrirmælum í lögum um opinber fjármál. Gerð er grein fyrir fjárheimildum, raunútgjöldum, aðgerðum og þeim árangri sem náðst hefur í átt að settum markmiðum undir þeim málefnasviðum og málaflokkum sem undir ráðherrann heyra.

Utanríkisþjónustan fer með utanríkismál og gætir í hvívetna hagsmuna Íslands gagnvart öðrum ríkjum. Borgaraþjónustan veitir íslenskum ríkisborgurum erlendis aðstoð þegar á þarf að halda, víðtækir viðskiptasamningar opna íslenskum fyrirtækjum markaði, varnarsamstarf tryggir öryggi borgaranna og með virkri þátttöku í alþjóðasamstarfi og með alþjóðlegri þróunarsamvinnu vinnur utanríkisþjónustan að því að efla virðingu fyrir mannréttindum allra, velsæld og friði.

Utanríkisþjónustan greinist annars vegar í utanríkisráðuneytið og hins vegar í sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur. Alls störfuðu tæplega 330 starfsmenn í utanríkisþjónustunni í árslok 2022, ríflega helmingur hér á landi á aðalskrifstofu og þýðingamiðstöð. Sendiskrifstofur Íslands voru 27 í 22 löndum árið 2022, þar af eru 19 tvíhliða sendiráð, átta fastanefndir hjá alþjóðastofnunum (þar af fjórar sem jafnframt gegna hlutverki sendiráðs) og fjórar aðalræðisskrifstofur.

Kjörræðismenn Íslands, sem þiggja almennt ekki laun fyrir vinnuframlag sitt, eru mikilvægir útverðir utanríkisþjónustunnar og framlag þeirra er ómetanlegt, ekki síst á sviði borgaraþjónustu og viðskiptaþjónustu. Í árslok 2022 voru þeir 207 í um 100 ríkjum. Fyrirkomulag rekstrar utanríkisráðuneytisins þar sem sendiskrifstofur og aðalskrifstofa ráðuneytisins eru reknar sem ein heild, hefur reynst hagkvæmt og leitt til betri nýtingar fjármuna, meðal annars með sameiginlegri stoðþjónustu og skýrari yfirsýn yfir reksturinn.

Hér á eftir er stutt yfirlit yfir framgang nokkurra þeirra verkefna sem voru ofarlega á baugi á árinu 2022.

Málefnasvið

Málefnasviðin sem heyra undir utanríkisráðuneytið eru tvö, 04 Utanríkismál og 35 Alþjóðleg þróunarsamvinna. Málefnasvið 04 skiptist í fjóra málaflokka, utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála, utanríkisviðskipti, samstarf um öryggis- og varnarmál og samningsbundin framlög vegna fjölþjóðasamstarfs. Málefnasvið 35 hefur einn málaflokk sem nefnist Alþjóðleg þróunarsamvinna.

4.10 Utanríkisþjónusta og stjórnsýsla utanríkismála

Undir málaflokkinn fellur meirihluti rekstrarkostnaðar utanríkisþjónustunnar, ráðuneytis og sendiskrifstofa og þau verkefni sem lúta að því að standa vörð um hag íslenskra ríkisborgara erlendis. Málaflokknum tilheyrir einnig rekstur EES-samningsins, fríverslunarsamninga og annarra viðskiptasamninga, viðskiptaþjónusta, alþjóðleg og svæðisbundin samvinna um frið og öryggi, þjóðaréttur og sjálfbær þróun til viðbótar við mannréttindi, loftslags- auðlinda- og umhverfismál.

Utanríkisráðuneytið hefur sætt ríkri aðhaldskröfu og gætt ráðdeildar í rekstri. Þetta veldur augljósum áskorunum bæði hvað varðar þau verkefni sem þjónustunni eru falin samkvæmt lögum, og að tryggja grunnstoðir í rekstri aðalskrifstofu og sendiskrifstofa Íslands erlendis. 

Tillögu um stafræna utanríkisþjónustu hefur að hluta verið hrint í framkvæmd í formi frekari nýtingar samfélagsmiðla og heimasíðna sendiskrifstofa til að koma upplýsingum áleiðis sem og að nýta fjarfundabúnað og önnur stafræn verkfæri í starfi til að halda kostnaði niðri. 

Starfsemi ráðuneytis hefur á undanförnum árum verið skipt í tvær byggingar á Rauðarárstíg. Stefnt er að því að flytja ráðuneytið undir sama þak í nýbyggingu við Austurhöfn í Reykjavík þar sem Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið verður einnig til húsa. Ráðuneytin deila móttöku, fundaaðstöðu, öryggisgæslu og ýmsum búnaði. Þrátt fyrir talsverða stækkun á öruggum fundarýmum vegna krafna samstarfs- og bandalagsþjóða, sem jafnframt munu nýtast Þjóðaröryggisráði, mun húsnæði utanríkisráðuneytisins minnka um 10% að fermetrafjölda. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að flutningar geti hafist í kringum áramót.

Ísland á alþjóðavettvangi

Innrás Rússlands í Úkraínu olli straumhvörfum í alþjóðapólitík og öryggisumhverfi Evrópu. Yfirgangur Rússa hefur enn einu sinni staðfest að tilvera þjóða byggist á virðingu fyrir alþjóðalögum, landamærum og landhelgi. Þetta á ekki síst við um fámenna og herlausa þjóð sem þarf að reiða sig á traust öryggis- og varnarsamstarf við bandamenn. Því styður Ísland einarðlega hið alþjóðlega regluverk sem umfram allt á að hindra að aflsmunur ráði í samskiptum þjóða.

Utanríkisráðherra hitti Dmytro Kuleba utanríkisráðherra Úkraínu á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í apríl 2022. Mynd: Atlantshafsbandalagið

Náið og títt samráð Atlantshafsbandalagsríkja og annarra vestrænna lýðræðisríkja reyndist lykillinn að góðri samstöðu og eindregnum stuðningi við úkraínsku þjóðina í sinni varnarbaráttu. Ísland lætur ekki sitt eftir liggja og hefur stutt Úkraínu með ráðum og dáð. 

Innrásin hefur reynst nöturleg áminning um að alþjóðalög, mannréttindi og lýðræðisleg gildi eru ekki sjálfgefin heldur þurfi að slá um þau skjaldborg eigi þau að tryggja smáþjóðum tilverurétt, viðunandi öryggi og velsæld. Ríflega 140 af 193 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna fylktu sér að baki stofnsáttmálanum í atkvæðagreiðslum sem tengdust innrásinni.

Fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum ásamt utanríkisráðherra á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðastliðið haust. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Þó reyndi á stoðir alþjóðakerfisins sem þegar var sligað eftir heimsfaraldur og langvarandi mannúðarkrísur. Orku- og matvælakrísan sem orsakaðist af innrás Rússa í Úkraínu jók enn á þann vanda. Fylgjendur fjölþjóðlegrar samvinnu, Norðurlöndin þar á meðal, verða að efla og treysta samskipti við ríki sem finnst þau ekki fá hljómgrunn innan alþjóðastofnana og sífellt bera skarðan hlut frá borði.

Spennan milli stórveldanna jókst og áhrifa hennar mun áfram gæta í fjölþjóðasamstarfi. Þar kristallast ólík sýn á alþjóðalög og reglur í alþjóðaviðskiptum, ekki síst grundvallarmannréttindi og frelsi. Virðing fyrir þeim er á undanhaldi, þvert á skuldbindingar ríkja heims. Ísland skipar sér í hóp ríkja sem standa vörð um þessi gildi og lætur að sér kveða á vettvangi alþjóðastofnana. Dæmi um það eru stór verkefni eins og formennska Íslands í Evrópuráðinu frá nóvember 2022 til maí 2023 og framboð Íslands til mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í nóvember ályktun Íslands og Þýskalands um stofnun sjálfstæðrar og óháðar rannsóknarnefndar sem safnar upplýsingum og gögnum sem nýst geta til að draga þá til ábyrgðar sem ofsótt hafa friðsama mótmælendur í Íran. Á myndinni er Annulena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands ásamt Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Mynd: Utanríkisráðuneytið.

Hvað sem líður ólíkri afstöðu ríkja er mikilvægt að vinna saman að þeim málefnum sem varða hagsmuni allra og þjóðir heims eru sammála um. Ber þar sérstaklega að nefna aðkallandi samstarf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og loftslags-, auðlinda og umhverfismál.

Loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun mannkyns en blikur eru á lofti varðandi framgang Parísarsamkomulagsins frá 2015. Afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu hafa beint sjónum að tengslum orkumála annars vegar og öryggismála í alþjóðlegu samhengi hins vegar og sýnt fram á mikilvægi þess að samfélög séu ekki háð orkugjöfum frá ótraustum ríkjum. Vegna orkukrísunnar kunna ýmis ríki að lenda í erfiðleikum við að uppfylla loftslagsskuldbindingar sínar, einkum til skamms tíma. Orkukrísan kallar þó jafnframt á hraðari orkuskipti, en í þeim felast ýmis tækifæri til að hagnýta íslenska þekkingu og reynslu.

Á norðurslóðum er einnig nokkur óvissa því framferði rússneskra stjórnvalda hefur sett allt svæðisbundið samstarf úr skorðum, þar með talið starfsemi Norðurskautsráðsins. Stjórnvöld þurfa að halda vöku sinni og gæta veigamikilla hagsmuna á þessu sviði. 

Ísland gegnir formennsku í norrænu samstarfi árið 2023 og fór undirbúningur fram á síðasta ári. Náið formlegt og óformlegt samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í utanríkismálum hefur mikla þýðingu, enda fylkja ríkin sér um þau gildi sem að framan eru talin. Með sögulegri aðildarumsókn Svíþjóðar og Finnlands að Atlantshafsbandalaginu er viðbúið að raðirnar þéttist enn frekar.

Utanríkisviðskipti

Sem lítið og opið hagkerfi er Ísland háð því að alþjóðlegt viðskiptaumhverfi hvíli á fyrirsjáanlegum og skýrum leikreglum, hvort sem er á grundvelli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), fríverslunarsamninga eða annarra viðskiptasamninga. Innrás Rússlands í Úkraínu, þvingunaraðgerðir og aðgerðir í tengslum við COVID-19 faraldurinn hafa haft mikil áhrif á efnahag ríkja um allan heim. Enda þótt íslensk stjórnvöld beiti sér ávallt fyrir frjálsum milliríkjaviðskiptum á samkeppnisgrundvelli blása nú vindar í alþjóðamálum sem ekki er unnt að líta framhjá.

Ljóst er að reynsla undanfarinna ára hefur gefið tilefni til að endurmeta þá hugmynd að samtvinnaðir viðskiptahagsmunir ríkja dugi til þess að tryggja friðsæld og framfarir. Viðskipti við ríki sem lúta einræðisvaldi og þar sem virðing er ekki borin fyrir réttarríkinu og lýðræði fela í sér áhættu sem fyrirtæki og þjóðir taka í auknum mæli tillit til við mótun stefnu. Öryggissjónarmið hafa því fengið aukið vægi í viðskiptastefnu ríkja og samkeppni þeirra í milli um sjaldgæfa málma og græna tækniþróun hefur sömuleiðis sett svip sinn á alþjóðaviðskiptaumhverfið.

Utanríkisráðuneytið leitast við að tryggja íslenskum fyrirtækjum sem besta samkeppnisstöðu og liðka fyrir beinum samskiptum milli fólks, fyrirtækja og stofnana. Evrópska efnahagssvæðið er mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslands og gerir fólki og fyrirtækjum auðvelt að stunda viðskipti, flytja á milli landa og laða fjárfestingar og vinnuafl til landsins. Ávinningurinn sem Ísland hefur haft af EES-samningnum er ótvíræður og það er ekki síst á umbrotatímum eins og þeim sem við lifum nú sem samningurinn hefur sannað gildi sitt. Á það bæði við um heimsfaraldurinn, þar sem samstarfið tryggði Íslandi snemma aðgengi að bóluefnum, og stríðið í Úkraínu, þar sem Ísland tekur þátt í samræmdum aðgerðum.

Alþjóðleg fjárfesting sem tengist nýsköpun og sprotastarfsemi hefur aukist mikið á undanförnum árum. Sú gleðilega og óvenjulega staða er nú uppi að Ísland er líklega eitt af þeim ríkjum þar sem frumkvöðlar í nýsköpunarfyrirtækjum eiga einna bestan aðgang að vísifjármagni. Samkeppnishæf nýsköpun á sér ætíð stað þvert yfir hefðbundin landamæri og þarf utanríkisstefna Íslands og áherslur í vaxandi mæli að taka mið af þörfum nýsköpunar og alþjóðlegrar frumkvöðlastarfsemi.

Aðild Íslands að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA) hefur átt mikilvægan þátt í að tryggja hagsæld hér á landi. Ísland var í formennsku í EFTA-samstarfinu á seinni hluta árs 2021 og fyrri hluta ársins 2022. Formennskutímabilinu lauk með ráðherrafundi í Borgarnesi. Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu hafði áhrif á EFTA-ríkin sem slitu samningaviðræðum við Rússland, Belarús og Kasakstan, sem verið höfðu í biðstöðu frá 2014. Ísland felldi einhliða niður tolla á allar innflutningsvörur frá Úkraínu og undirbúningur var hafinn við allsherjaruppfærslu fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Úkraínu.

Ráðherrafundur EFTA fór fram í Borgarnesi í júní. Mynd: EFTA

Innleiðing þvingunaraðgerða gagnvart Rússlandi í kjölfar innrásarinnar hafði minni áhrif á viðskipti við Rússland en ella vegna samdráttar á undanförnum árum sem skýrist af þvingunaraðgerðum sem fyrir voru og mjög íþyngjandi gagnaðgerðum Rússa í kjölfar innlimunar Krímskaga.

4.20 Utanríkisviðskipti

Undir málaflokkinn falla einungis framlög til Íslandsstofu, sjálfseignarstofnunar en um hana gilda lög nr. 38/2010, með síðari breytingum. Utanríkisráðuneytið starfar náið með Íslandsstofu að því að efla íslenskan útflutning og laða ferðamenn og erlenda fjárfestingu til landsins.

Samstarf Íslandsstofu við Business Sweden gerir íslenskum fyrirtækjum kleift að nýta sér yfirgripsmikla ráðgjafaþjónustu á erlendum mörkuðum. Hjá Business Sweden starfa yfir 450 sérfræðingar og ráðgjafar í 37 löndum. Íslandsstofa er milliliður íslenskra fyrirtækja við Business Sweden. Þjónustan er veitt á markaðsforsendum og  verðlagning fer eftir eðli og umfangi verkefna hverju sinni

Markaðsverkefnið Skapandi Ísland tryggir skýra stefnumótun og markvisst samstarf þegar kemur að kynningu á íslenskri menningu erlendis. Markmið verkefnisins er að efla vitund um íslenskar listir og skapandi greinar á erlendum mörkuðum, auka þekkingu alþjóðlegs fagfólks á listum og skapandi greinum hér á landi og styðja við útflutning. Íslandsstofa hefur umsjón með verkefninu og sett hefur verið á fót markaðsráð lista og skapandi greina, með fulltrúum viðkomandi ráðuneyta, miðstöðva lista og skapandi greina og Listaháskóla Íslands. Tvíhliða sendiskrifstofur Íslands gegna lykilhlutverki í verkefninu og nýtist reynsla, sambönd og staðarþekking starfsfólks sendiskrifstofanna við undirbúning og framkvæmd viðburða. Verkefninu verða lagðar til 90 m.kr. árlega til og með ársins 2025 og er því hægt að ráðast í umfangsmeiri menningarkynningar á lykilmörkuðum og gera áætlanir til lengri tíma en eins árs. Áhersla er á aukna aðkomu atvinnulífs að fjárfestingum og atvinnuskapandi verkefnum í þróunarlöndum. Íslandsstofa hefur það hlutverk að kynna fyrirtækjum tækifæri í þróunarlöndum og víðar í gegn um vefinn Heimstorg.is. Í samstarfi við utanríkisráðuneytið sinnir Íslandsstofa ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja sem hyggjast nýta sér þessi tækifæri. Þá hefur Íslandsstofa milligöngu um að kynna lausnir, vörur og þjónustu íslenskra fyrirtækja fyrir innkaupastofnun Sameinuðu þjóðanna og miðla upplýsingum til þeirra um útboð Alþjóðabankans og annarra alþjóðastofnana.

4.30 Samstarf um öryggis- og varnarmál

Ísland tryggir ytra öryggi sitt og varnir með virku alþjóðlegu samstarfi, bæði marghliða og tvíhliða. Aðildin að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru sem fyrr meginstoðir Íslands í öryggis- og varnarmálum.

Bandalagsríki Atlantshafsbandalagins og önnur ríki Evrópu standa frammi fyrir fordæmalausum áskorunum í öryggis- og varnarmálum. Ísland tekur virkan þátt í þvingunaraðgerðum vesturlanda gagnvart Rússlandi og styður með margvíslegum hætti við varnarbaráttu Úkraínu. Þá hefur varnarviðbúnaður Atlantshafsbandalagsins verið aukinn umtalsvert.

Leiðarstefin í varnar- og öryggismálum eru að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Þá er unnið að því að auka viðnámsþol gagnvart nýjum ógnum og áskorunum, til dæmis netógna og upplýsingaóreiðu.

Ný grunnstefna Atlantshafsbandalagsins var samþykkt á leiðtogafundi bandalagsins í Madríd í júní 2022 en innrás Rússlands í Úkraínu og breyttar öryggishorfur í Evrópu settu eins og við er að búast mark sitt á hana. Stefnan undirstrikar samheldni og samstöðu bandalagsríkjanna sem byggist á tengslunum yfir Atlantshafið og lýðræðislegum gildum. Grundvallarmarkmið Atlantshafsbandalagsins er að tryggja sameiginlegar varnir. Í stefnunni er lögð áhersla á að styrkja þurfi verulega fælingu, varnir og viðbragðsgetu bandalagsins sem er hryggjastykki þeirrar skuldbindingar sem felst í fimmtu grein stofnsáttmála þess. Áhersla er jafnframt lögð á styrkingu viðnámsþols til að tryggja öryggi samfélaga bandalagsríkja. Þá er undirstrikað mikilvægi þverlægra áherslumála; tæknilegrar nýsköpunar, loftslagsbreytinga og öryggi borgara, sem og framkvæmdar á stefnu bandalagsins um konur, frið og öryggi.

Framlag Íslands til sameiginlegra varna Atlantshafsbandalagsins felst m.a. í þátttöku í loftrýmiseftirliti Atlantshafsbandalagsins, loftrýmisgæslu og æfingum bandalagsins og bandalagsríkja. Ísland veitir liðsafla vina- og bandalagsþjóða aðstöðu og gistiríkisstuðning og tryggir rekstur varnarmannvirkja, eftirlits- og samskiptakerfa og búnaðar. Þátttaka Íslands í herstjórnum bandalagsins hefur verið efld til að auka upplýsingamiðlun um aðgerðir þeirra og þróun mála í nágrenni Íslands. Undanfarin ár hefur verið unnið að því að efla viðbúnaðargetu og varnartengda innviði, ekki síst á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, í samvinnu við Bandaríkin og Atlantshafsbandalagið. Þetta helst í hendur við verulega aukin framlög Íslands til málaflokksins sem mun auka getu á Íslandi til að taka enn virkari þátt í því að styrkja sameiginlegar varnir bandalagsins.

Frá varnaræfingunni Norður Víkingi í Hvalfirði. Mynd: Utanríkisráðuneytið/Sigurjón Ragnar

Samvinna við Bandaríkin um varnir og öryggi á grundvelli varnarsamnings ríkjanna fer vaxandi. Ein birtingarmynd þess er tímabundin viðvera kafbátaeftirlitsflugvéla á Íslandi og sameiginlegar varnaræfingar. Í apríl 2022 fór varnaræfingin Norður-Víkingur fram á Íslandi sem náði hápunkti með landgöngu í Hvalfirði. Gera má ráð fyrir að samstarf við Bandaríkin um varnir og viðbúnað á N-Atlantshafi muni aukast enn á komandi misserum.

Ísland hefur í auknum mæli gert sig gildandi í svæðisbundnu samstarfi á sviði öryggis og varnarmála. Samstarf Norðurlanda heldur áfram að styrkjast á vettvangi NORDEFCO, ekki síst í ljósi þess að líklega verða þau öll innan skamms aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Þróttmikið samstarf á sér stað innan Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (JEF) sem Ísland gerðist aðili að árið 2021. Þá tók Ísland að sér formennsku í Norðurhópnum svonefnda fyrri hluta árs 2022 en hann er samstarfsvettvangur líkt þenkjandi Norður-Evrópuríkja um öryggis- og varnarmál. Varnarmálaráðherrar hópsins funduðu í Reykjavík í júní í fyrra.

35.10 Þróunarsamvinna

Alþjóðleg þróunarsamvinna er á ábyrgð utanríkisráðherra og fellur undir málefnasvið 35. Meginstoðir alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslands eru stuðningur við tvíhliða samstarfsríki og samstarf við alþjóðastofnanir ásamt öflugri samvinnu við félagasamtök og atvinnulíf með ríka áherslu á árangur, skilvirkni og vönduð og fagleg vinnubrögð. Markmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli mannréttinda, kynjajafnréttis og sjálfbærrar þróunar.

Vatnsverkefni Íslands í samvinnu við UNICEF og stjórnvöld í Síerra Leóne. Mynd: Utanríkisráðuneytið

Samstarfslönd Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu eru Malaví og Úganda. Meginmarkmiðið er að draga úr fátækt og bæta lífsskilyrði í fátækum fiskimannabyggðum með áherslu á bættan aðgang að menntun, heilbrigðisþjónustu, hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu. Unnið var að undirbúningi fastrar viðveru og opnun sendiráðs í Síerra Leóne sem áætlað er að opna í höfuðborginni Freetown haustið 2023.

Ísland leggur áherslu á samstarf við fjórar fjölþjóðastofnanir: Alþjóðabankann, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnfrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA). Stuðningurinn felst í samningsbundnum kjarnaframlögum sem gera stofnununum kleift að skipuleggja starfið í takt við stefnumótun og markmið. Ísland styður einnig tiltekin verkefni, málaflokka eða ríki og leggur til útsenda sérfræðinga.

Undanfarin ár hefur ástand mannúðarmála víða versnað, ekki síst sökum loftslagsbreytinga og náttúruhamfara en einnig vegna viðvarandi óaldar og óstöðugs stjórnmálaástands. Ísland jók framlög til mannúðaraðstoðar umtalsvert, bæði til að bregðast við neyðarástandi í tilteknum löndum og með hærri kjarnaframlögum til áherslustofnana í mannúðaraðstoð sem nýtast þar sem neyðin er mest.

Ráðuneytið styður einnig félagasamtök sem sinna alþjóðlegu þróunar- og mannúðarstarfi ásamt því að stuðla að samstarfi við atvinnulífið m.a. með því að styðja við uppbyggingu atvinnulífs í þróunarríkjum og vinna þannig að framgangi heimsmarkmiðanna.

Mikil áhersla er lögð a umhverfis- og loftslagstengd verkefni í þróunarsamvinnu og aukið samstarf við stofnanir á því sviði s.s. Aðlögunarsjóðinn, Græna loftslagssjóðinn, Loftslagsloforð SÞ og sjóði á vegum Alþjóðabankans. Þá vinnur GRÓ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem er sjálfstæð miðstöð sem starfar undir merkjum UNESCO, að því að byggja upp færni og þekkingu í þróunarlöndunum á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu. GRÓ-skólarnir fjórir, Jafnréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðsluskólinn og Sjávarútvegsskólinn, hafa starfað um áratugaskeið og veitt menntun og þjálfun til handa fjölmörgum nemendum frá lágtekjuríkjum.   

Úkraína

Ísland hefur frá fyrsta degi stríðsins verið samstíga bandalags- og samstarfsríkjum í stuðningi við Úkraínu og lætur ekki sitt eftir liggja í víðtækum þvingunaraðgerðum gegn Rússlandi. Við upphaf stríðsins aðstoðaði borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins Íslendinga og fjölskyldur þeirra í Úkraínu, Rússlandi og nærliggjandi löndum. Stuðningur íslenskra stjórnvalda við Úkraínu felst í mannúðaraðstoð, efnahagslegum stuðningi og framlögum til varnarmála, en heildarframlög Íslands námu 2,2 milljörðum króna á árinu 2022.

Framlög til mannúðarstarfs og neyðarviðbragða á vegum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana námu hálfum milljarði króna. Efnahagsleg aðstoð sem rann í sjóði Alþjóðabankans vegna Úkraínu var um 700 milljónir króna. Um 213 milljónir runnu í alþjóðlegan sjóð sem fjármagnar sérhæfðan búnað til rafmagnsframleiðslu og stjórnvöld unnu að því í samstarfi við Landsnet að safna saman raforkubúnaði sem sendur var frá Íslandi til Úkraínu. Stjórnvöld sendu einnig matvæli að beiðni úkraínskra stjórnvalda og styrktu stoðtækjaverkefni Össurar í landinu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti Kænugarð í Úkraníu ásamt utanríkisráðherrum frá öðrum Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum í nóvember. Mynd. Utanríkisráðuneytið

Ísland hefur lagt sitt af mörkum hvað varnartengdan stuðning við Úkraínu varðar. Umtalsverðir fjármunir hafa verið lagðir í stuðningssjóði Atlantshafsbandalagsins og í sérstakan stuðningssjóð fyrir Úkraínu (International Fund for Ukraine) sem bresk stjórnvöld settu á laggirnar. Þá skipulagði Ísland flutning á hergögnum frá bandalagsríkjum til Úkraínu. Ísland hafði einnig forgöngu um skipulagningu þjálfunar fyrir Úkraínu í sprengjuleit og -eyðingu, sem er samstarfsverkefni Norðurlandanna og Litáen. Þjálfunin hófst á fyrstu mánuðum 2023. Verulegt magn af vetrarbúnaði, sérstaklega ullarvörum, hefur verið sent frá Íslandi til varnarsveita Úkraínu sem var að stórum hluta afrakstur sjálfboðavinnu þúsunda Íslendinga í gegnum átakið „Sendum hlýju“. 

Framvinda í kynja- og jafnréttismálum

Starf utanríkisþjónustunnar á sviði jafnréttismála byggist á áherslum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem miðar að því að fullu kynjajafnrétti verði náð á Íslandi fyrir árið 2030. Ísland leiddi áfram lista Alþjóðaefnahagsráðsins um mest kynjajafnrétti fjórtánda árið í röð (World Economic Forum, Global Gender Gap Report, 2022). Í alþjóðlegu samstarfi  leitast Ísland við að vera fyrirmynd og ötull málsvari jafnréttismála. Kynjajafnrétti eru grundvallar mannréttindi, drifkraftur sjálfbærrar þróunar, friðar og framfara innan alþjóðakerfisins. Á árinu stóðu utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur fyrir á þriðja hundrað verkefna og viðburða á sviði jafnréttismála um allan heim.

Í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum 2020-2023 eru verkefni utanríkisráðuneytisins þrjú. „Innleiðing jafnréttisvottunar í þróunarsamvinnu“  lauk á árinu 2022 og þá eru verkefnin „ Þátttaka karla í jafnréttismálum“ og „Jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum“ vel á veg komin.

Utanríkisráðuneytið starfar eftir fimm ára áætlun um kynjaða fjárlagagerð 2019-2023 og hefur kortlagt kynjasjónarmið og jafnréttismetið verkefni í þeim málaflokkum sem undir ráðuneytið heyra. Þeirri vinnu er gerð skil í sérstakri stöðuskýrslu sem kemur út ár hvert. Árið 2022 var hafin kortlagning kynjasjónarmiða í fjárframlögum Íslands til varnarmála. Ráðuneytið vinnur einnig jafnréttismat á fjárlagatillögum og lagafrumvörpum.

Unnið er markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á sendiskrifstofum og tryggja að störfin skiptist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Í yfirstjórn ráðuneytisins ríkir kynjajafnvægi. Þá veittu á árinu 2022 forstöðu sendiskrifstofum sautján karlar og tíu konur. Ráðuneytið er jafnlaunavottað samkvæmt íslenska jafnlaunastaðlinum ÍST 85. Óútskýrður launamunur var innan við 1%, sem er með því besta sem gerist.

Aðgerðir í kynja- og jafnréttismálum á málefnasviði 04

Málsvarastarf í þágu kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna er mikilvægur hluti starfs ráðuneytisins um allan heim. Ísland hefur ítrekað vakið athygli á bágri stöðu kvenna og stúlkna bæði í Afganistan og Íran, ekki síst í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og verið meðflytjandi ályktana því tengt. Utanríkisráðherra nýtir hvert tækifæri til að taka upp þessi mál þar á meðal í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrra og hefur tekið höndum saman með kvenkyns utanríkisráðherrum með yfirlýsingar um þau mál.

Ísland tók við formennsku í Evrópuráðinu í nóvember 2022 og lagði sérstaka áherslu á jafnréttismál í formennskuáætlun sinni. 

Ísland hefur beitt sér fyrir því að setja jafnréttisákvæði í viðskiptasamninga, þ.á.m. í núgildandi fríverslunarsamningi við Bretland. Er þetta fyrsti fríverslunarsamningurinn sem Ísland gerir þar sem slík ákvæði er að finna. 

Ísland hefur leikið lykilhlutverk við að koma jafnréttismálum á dagskrá innan Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar (WTO) og stýrir óformlegum vinnuhópi um þau mál, ásamt Botsvana og El Salvador. Á ráðherrafundi WTO  í júní 2022 samþykktu aðildarríkin í fyrsta skipti ákvæði um efnahagslega valdeflingu kvenna  í ráðherrayfirlýsingu fundarins.  

Ísland leggur áherslu á innleiðingu ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur frið og öryggi, ekki síst á vettvangi fastanefndar Íslands í Brussel, New York og Vín. Landsáætlun Íslands rann sitt skeið á enda í lok árs 2022 og er unnið að mótun málefnaáherslna til undirbúnings fjórðu áætlunarinnar. Ráðuneytið fjármagnar stöðu sérfræðings á þessu sviði hjá Atlantshafsbandalaginu. 

Ísland leggur einnig áhersla á virka þátttöku karla og drengja í jafnréttisbaráttunni og hefur frá árinu 2015 efnt til nær tuttugu ráðstefna undir merkjum Barbershop sem vinna að þessu markmiði. 

Aðgerðir í kynja- og jafnréttismálum á málefnasviði 35 

Kynja- og jafnréttismál eru bæði þverlægt og sértækt markmið í allri þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands. Gerð hafa verið stefnumið um báða málaflokka sem unnið er eftir og margvíslegar aðgerðir innleiddar til að bæta stöðu kvenna og stúlkna. Þau lúta helst að því að sporna gegn kynbundnu ofbeldi, stuðla að heilbrigði stúlkna og kvenna, menntun með áherslu á stúlkubarnið, valdeflingu kvenna, og aukinni þátttökukarla og drengja í jafnréttismálum. 

Þróunarsamvinnunefnd Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD DAC) birtir reglulega greiningar á framlögum til jafnréttismála í þróunarsamvinnu og er Ísland ásamt Kanada, Hollandi og Írlandi í toppsæti yfir lönd þar sem yfir 80% verkefna innihalda ríkan jafnréttisþátt.

Málsvarastarf og forystuhlutverk á alþjóðavettvangi hefur einnig mikið vægi. Hefur Ísland m.a. leiðir áfram aðgerðarbandalag um kynbundið ofbeldi innan átaksverkefnis UN Women Kynslóð jafnréttis (Generation Equality Forum) í samstarfi við Bretland, Úrúgvæ og Kenía og fleiri aðila.

Mikið jafnréttisstarf er unnið á vettvangi alþjóðastofnana s.s. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF), Stofnun Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) og Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA), sem eru áherslustofnanir í þróunarsamvinnu Íslands. Auk kjarnaframlaga styður Ísland einstök jafnréttisverkefni þessara stofnana s.s. jafnréttissjóð UNICEF sem vinnur að menntun stúlkna á áhættusvæðum og sameiginlegt verkefni UNICEF og UNFPA um afnám limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna. Önnur verkefni lúta að valdeflingu sýrlenskra kvenna í flóttamannabúðum í Jórdaníu í gegnum UN Women, stuðningi við skrifstofu UN Women í Palestínu, og umfangsmikil verkefni í samvinnu við UNFPA vegna baráttunnar við fæðingarfistil í Síerra Leóne og Malaví. 

Sendiráð Íslands í París stóð í annað sinn fyrir viðburði í tengslum við alþjóðlega jafnlaunadaginn í september, í samstarfi við Efnahags- og framfarastofnunina OECD. Í þetta sinn var sjónum beint að áhrifum fyrirkomulags á fæðingarorlofi í aðildarríkjum stofnunarinnar á jöfn laun kynjanna.

Sendiráð Íslands í Malaví hefur lagt aukna áherslu á verkefni er snúa að  jafnréttismálum og hóf á árinu samstarf við ýmsar stofnanir og samtök til að veita heildstæðan stuðning  með það að markmiði að fyrirbyggja og uppræta kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni. Þá gerði sendiráð Íslands í Úganda stöðugreiningar á kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi í Buikwe og Namayingo héruðum á árinu. 

Ísland hlaut á árinu gullvottun frá Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (United Nations Development Programme, UNDP) fyrir vinnu á sviði jafnréttismála og þróunarsamvinnu. Ísland er fyrsta framlagsríkið sem undirgengst slíka vottun.

Fréttaannáll 2022

 

Fréttaannáll UTN 2022.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum