Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra

Innrás Rússlands í Úkraínu var alltumlykjandi í utanríkismálum á árinu 2022. Þetta hörmulega stríð hefur gjörbreytt landslagi alþjóðamála og undirstrikað mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðalög og stofnanir sem koma eiga í veg fyrir að aflsmunur ráði för í samskiptum þjóða.

Hryllilegir glæpir Rússa í Úkraínu hafa blasað við frá upphafi. Það er ekki einungis í þágu úkraínsku þjóðarinnar að tryggt sé að innrásaröflin komist ekki upp með ofbeldi sitt heldur á öll heimsbyggðin mikið undir því. Tjónaskráin sem samþykkt var á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík í vor er áþreifanlegt framlag leiðtoga aðildarríkja Evrópuráðsins og þýðingarmikið skref til að tryggja ábyrgðarskyldu vegna brota Rússlandshers. Fundurinn markaði lok formennsku Íslands í ráðinu sem hófst síðla árs 2022.

Eftir marga áratugi þar sem viðfangsefni alþjóðamála snérust einkum um að finna leiðir til þess að þétta samstarf og auka hagsæld með alþjóðlegum viðskiptum hefur orðið skyndileg breyting. Tortryggni milli ríkja hefur aukist. Meiri áhersla er lögð á að verða ekki svo háð viðskiptum við fjarlæg ríki með ólíkt stjórnarfar að erfitt sé að takast á við stóráföll á borð við farsóttir og stríðsátök án órofa viðskipta. Þetta er vandrötuð vegferð sem Ísland verður að feta af öryggi.

Á tímum óvissu og umbrota í alþjóðamálum eins og nú verður að huga vel að stöðu Íslands í heiminum. Frelsi okkar og fullveldi raungerist einkum í þeirri staðreynd að við eigum stað meðal annarra þjóða í heiminum. Því fylgja skyldur. Það á því að vera viðvarandi metnaðarmál að standa vel og fagmannlega að allri framgöngu Íslands á alþjóðavettvangi og gæta vel að hagsmunum landsins og orðspori um heim allan. Í þeim efnum þarf Ísland líka að vera meðvitað um þá skyldu sína að leggja sitt af mörkum, meðal annars til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu og þátttöku í varðstöðu um mannréttindi í heiminum.

Horfa á ávarpið

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum