Hoppa yfir valmynd

Greining á útgjöldum

Alls námu heildarútgjöld, þ.e. gjöld og fjárfestingar, þeirra málaflokka sem fjármála- og efnahagsráðuneytið ber ábyrgð á 288 ma.kr. árið 2022. Stærstu frávik má rekja til hærri til hærri fjármagnskostnaðar ríkissjóðs og lífeyrisskuldbindinga.

Í málaflokki 33.1 Fjármagnskostnaður nema útgjöld 103,5 ma.kr. sem er 14,8 ma.kr. yfir áætlun fyrir árið 2022. Frávik frá áætlun má annars vegar rekja til veikingar gengis íslensku krónunnar gagnvart evru sem leiddi til um 4,5 ma.kr. gjaldfærslu vegna gengisáhrifa á höfuðstól erlendra lána sem almennt er ekki gert ráð fyrir í áætlunum. Hins vegar reyndust vextir af lánum og gjaldfærðar verðbætur um 10,3 ma.kr. yfir áætlun sem skýrist af hærri verðbólgu og óhagstæðari vaxtakjörum en spár gerðu ráð fyrir. Í fjáraukalögum ársins 2022 var veitt heimild fyrir 37 ma.kr. Var sú heimild veitt á grunni þess að umtalsvert hærri verðbólga var á þessu ári en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir.

Í málaflokki 33.3 Lífeyrisskuldbindingar nema útgjöld 126,4 ma.kr. og eru þau um 50 ma.kr. hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hluti fráviksins skýrist af hækkun vaxta og verðbóta og vísitölu launa opinberra starfsmanna sem hækkaði um 7,3% en heildarhækkun skuldbindinga B-deildarinnar nam 90 ma.kr. á árinu. Þá var raunávöxtun B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af forinngreiðslum ríkissjóðs upp í bakábyrgð skuldbindinga neikvæð um 15,7% á árinu, sem leiðir til 22,1 ma.kr. gjaldfærslu. Í fjáraukalögum 2022 var veitt 14 ma.kr. framlag vegna lífeyrisaukasjóðs A-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

Málaflokkur 5.1. Skattar og innheimta er innan fjárheimilda og þegar horft er til uppsafnaðra heimilda nemur afgangur af rekstri málaflokksins 1,3 ma.kr. eða 11,3%. Afgangur ársins er til kominn vegna framlags til tímabundins verkefnis sem veitt var til að standa straum af kostnaði við hefðbundna skiptameðferð þeirra aðila sem sinna ekki skyldu sinni til skráningar á raunverulegum eigendum skv. lögum um skráningu raunverulega eigenda en verkefnið frestaðist til ársins 2023. Auk þess hefur málaflokkurinn uppsafnaðar heimildir sem eru að mestu til komnar vegna uppsafnaðs höfuðstóls Skattsins en mun stofnunin ganga á uppsafnaðan höfuðstól sinn á árinu 2023.

Heildargreiðslur málaflokks 29.10 Barnabætur eru 252 m.kr. yfir áætlunum eða sem nemur 2%. Í fjáraukalögum 2022 var veitt heimild til sérstaks barnabótaauka að upphæð 20 þ.kr. með hverju barni sem fengu ákvarðaðar barnabætur við álagningu 31. maí 2022 eða alls 1.100 m.kr. Viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækkuðu um 8% en heildarfjárhæð útgreiddra barnabóta hækkaði um 4%. Launavísitalan hækkaði lítið meira en viðmiðunarfjárhæðir sem alla jafna leiðir til þess að fleiri fara yfir viðmiðunarmörk og barnabætur skerðast. Fjöldi á álagningarskrá jókst um 14 þúsund einstaklinga á milli ára og hefur aldrei fjölgað eins mikið á milli ára. Því voru fleiri einstaklingar undir í álagningu sem höfðu rétt til barnabóta en gert var ráð fyrir. Fjöldi einstaklinga sem fengu barnabætur jókst um 4.500 en til samanburðar hafði þeim fjölgað að jafnaði um 1.500 á milli ára seinustu þrjú ár þar á undan.

Heildargreiðslur málaflokks 31.1 Húsnæðisstuðningur vegna vaxtabóta eru 84 m.kr. undir heimildum eða sem nemur 3,8%. Greiddar vaxtabætur stóðu nánast í stað á milli ára þrátt fyrir að eignaskerðingarmörk vaxtabóta hafi hækkað um 50% á milli ára. Laun hækkuðu umtalsvert árið 2022 ásamt auknum fjármagnstekjum. Tekjustofn til útreiknings vaxtabóta er frábrugðinn tekjuskattsstofni að því leyti að fjármagnstekjur eru meðtaldar. Eignastaða landsmanna í húsnæði batnaði mikið á milli ára en matsverð fasteigna hækkaði um 26% sem leiðir til þess að greiddar vaxtabætur vegna eignatengingar skerðast. Einstaklingum sem fengu greiddar vaxtabætur fækkaði um 340 milli ára en það er yfirlýst stefna stjórnvalda að beina húsnæðisstuðningi í annan farveg en í gegnum vaxtabótakerfið.

Málaflokkur 30.1 Vinnumál og atvinnuleysi eru 1,7 ma.kr. innan fjárheimilda þegar horft er til fluttra fjárheimilda og nemur afgangur af rekstri málaflokksins samtals 34,1%. Í fjárlögum ársins 2022 var veitt 1 ma.kr. framlag vegna stuðnings til rekstraraðila í veitingaþjónustu til málaflokksins en auk þess var 4 ma.kr. óráðstöfuð árslokastaða frá árinu 2021 flutt yfir til ársins 2022. Undir málaflokkinn fellur stuðningur við fyrirtæki vegna heimsfaraldursins og þar undir falla fjögur úrræði; launakostnaður á uppsagnarfresti, lokunarstyrkir til fyrirtækja vegna COVID-19, tekjufallsstyrkir til rekstraraðila vegna COVID-19 og viðspyrnustyrkir. Mat á áhrifum þessara aðgerða á ríkissjóð byggði á nokkurri óvissu og til að gæta varúðar miðaðist kostnaðarmatið við ytri mörk (væntanlegt hámark) á mögulegum kostnaði. Því var ljóst að frávik vegna úrræðanna gætu orðið mikil.

Útgjöld málaflokks 5.4 Stjórnsýsla ríkisfjármála eru 672,7 m.kr. umfram fjárheimildir ársins en þegar tekið er tillit til stöðu frá fyrra ári og millifærslu úr almennum varasjóði eru útgjöldin 325,3 m.kr. umfram heimildir eða sem nemur 3,9%. Frávikin skýrast að mestu af útgjöldum vegna dómkrafna en þau útgjöld eru eðli málsins samkvæmt mjög breytileg á milli ára. Millifært var 1,2 ma.kr. framlag af almennum varasjóði til að mæta umframútgjöldum dómkrafna á árinu. Umframútgjöld dómkrafna eru að mestu til komin vegna dóms um að endurgreiða skyldi flutningsjöfnunargjald sem lagt var á innfluttar olíuvörur.

Útgjöld vegna málaflokks 5.20 Eignaumsýsla ríkisins voru 1,5 ma.kr. innan heimilda. Málaflokkurinn er ólíkur öðrum málaflokkum ráðuneytisins að því leyti að hann er að mestu fjármagnaður með sértekjum. Jákvæð afkoma málaflokksins skýrist að mestu af afkomu Ríkiseigna en í uppgjöri á Ríkiseignum var 1,6 ma.kr. fjárfestingarframlag frá fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar tekjufært sem leiddi til betri afkomu en annars hefði verið.

Frávik vegna almenna varasjóðsins sýna óráðstafaða stöðu varasjóðsins sem verður felld niður í árslok. Nánari umfjöllun um almenna varasjóðinn er að finna í kafla um almenna varasjóðinn. Frávik vegna reksturs annarra málaflokka voru óveruleg.

Á málefnasvið 5 er um að ræða uppsafnað fjárfestingarframlag sem skýrist að mestu af uppsöfnuðu framlagi vegna fjárfestinga sem hafa frestast. Vegur þar mest fjárveiting vegna Sjávarútvegshússins en það verkefni hefur dregist. Auk þess er til staðar óráðstafað fjárfestingarframlag Ríkiseigna. Þá er fjárheimild á málaflokki 34.20 Sértækar fjárráðstafanir vegna útgjalda samkvæmt heimildarákvæðum fjárlaga sem felur í sér heimild til fjárfestinga sem færast á aðra málaflokka. Um er að ræða 6 ma.kr. heimild sem veitt var vegna kaupa á hluta á Landsbankahúsi að Austurbakka 2 en þar af voru um 1,4 ma.kr. vegna framkvæmda við aðlögun á húsnæðinu.

 
 

Yfirlit yfir ráðstöfun varasjóða

Í lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, er gert ráð fyrir að hægt sé að nýta varasjóði málaflokka til að bregðast við áhættu og veikleikum í rekstri. Ef hætta er á að útgjöld verði umfram fjárveitingar skal hver ráðherra leita leiða til að lækka gjöld innan ársins, millifæra fjárveitingar innan málaflokka eða nýta varasjóði þannig að útgjöld verði ekki umfram fjárveitingar. Ráðuneytið hefur til umráða fjóra varasjóði málaflokka sem allir eru á málefnasviði 05 Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla. Eftirfarandi töflur sýna ráðstöfun úr varasjóðunum.

 

Almennur varasjóður

Í fjárlögum er óskiptur almennur varasjóður, skv. 24. gr. laga um opinber fjármál, til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti á fjárlagaárinu. Almennur varasjóður nemur að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga. Framlag úr ríkissjóði í almennan varasjóð á árinu 2022 nam 16,2 ma.kr. Fjármála- og efnahagsráðherra tekur ákvarðanir um ráðstöfun fjár úr varasjóði og gerir fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir nýtingu þess þegar ákvörðun liggur fyrir. Almennum varasjóði er einkum ætlað að mæta frávikum í launa-, gengis- og verðlagsforsendum fjárlaga ásamt öðrum meiri háttar ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum.

Á árinu 2022 voru veittir 5,1 ma.kr. úr sjóðnum vegna launa, verðlags- og gengisbóta. Þá var veitt 4,2 ma.kr. framlag vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd auk þess sem millifærðir voru 3 ma.kr vegna útgjalda í tengslum við Covid 19.  Veitt var framlag til ýmissa mála sem eru í eðli sínu tímabundin og ófyrirséð og eru þau talin upp í eftirfarandi töflu:

Yfirlit yfir styrki

Vegna eðlis starfsemi fjármála- og efnahagsráðuneytis eru styrkir og framlög skv. 42. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál, ekki stór hluti af starfsemi ráðuneytisins. Veittur var 200 þ.kr. styrkur til Hinsegin daga í Reykjavík af ráðstöfunarfé ráðherra.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum