Hoppa yfir valmynd

Ávarp ráðherra

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherraÍ fyrra var fyrsta heila starfsár nýrrar ríkisstjórnar. Fjármála- og efnahagsráðuneytið er oftar en ekki miðpunkturinn þegar kemur að því að útfæra stefnuna og verkefnin því eðli málsins samkvæmt fjölbreytt. Í mínum huga felst líklega mikilvægasta hlutverk ráðuneytisins í að leita sífellt leiða til að létta á kerfinu og einfalda líf fólks.

Þar er af mörgu að taka. Árið 2022 einkenndist af áframhaldandi stórsókn í stafvæðingu opinberrar þjónustu. Aðsókn að Ísland.is jókst um 80% frá fyrra ári og þjónustuleiðunum fjölgar stöðugt. Ökuskírteini, þinglýsingar, fæðingarorlof og pósthólf eru aðeins örfá dæmi af mörgum sem nú eru aðgengileg með örfáum smellum í símanum. Markmiðið er að sjálfsögðu betri opinber þjónusta, en ekki síður aukin framleiðni í kerfinu og betri nýting á skattpeningum fólksins í landinu.

Við höfum sömuleiðis mikilvægu hlutverki að gegna í að nútímavæða kerfið. Minnka „báknið“. Á árunum 2019-2022 fækkaði stofnunum ráðuneytisins um þrjár og áfram verður unnið að því að þróa kerfið í takt við tímann. Með breyttu vinnulagi- og umhverfi hafa skapast tækifæri til að draga verulega úr húsnæðiskostnaði ríkisins. Á árinu 2022 opnuðum við fyrstu „deigluna“, þar sem stofnanir eru sameinaðar undir einu og smærra þaki. Í þeirri fyrstu koma saman Framkvæmdasýslan -Ríkiseignir og Ríkiskaup og nota hátt í 40% færri fermetra en á sínum fyrri skrifstofum. Vinnurýmið er opið og þekking fólks nýtist þvert á stofnanirnar. Þessari þróun munum við halda áfram af fullum krafti.

Þó heimsfaraldurinn virðist langt að baki var það bara í fyrra sem síðustu stuðningsaðgerðum stjórnvalda lauk. Í upphafi árs var ráðist í sértækt úrræði fyrir aðila í veitingarekstri með sérstökum veitingastyrkjum upp á tæpan milljarð króna. Í heildina var umfang efnahagsaðgerða vegna Covid-19 um 450 milljarðar króna. Við leyfðum ríkissjóði að fara í halla til að standa með fólki og fyrirtækjum í þeirri trú að hagkerfið myndi koma sterkara til baka fyrir vikið. Þetta gekk eftir.

Hagvöxtur hér er meiri en víðast hvar í kringum okkur, atvinnuleysi er nánast ekkert og kaupmáttur óx áfram í fyrra þrátt fyrir aukna verðbólgu, mest hjá þeim tekjulægri. Viðsnúningurinn sést líklega best þegar bornar eru saman væntingar okkar um stöðuna í ár og síðan það sem rauðgerðist. Samandregið má segja að það sé sannarlega viðburðaríkt ár að baki. Eflaust verður yfirstandandi ár það ekki síður. Hér í ráðuneytinu munum við halda áfram að vinna af fullum krafti í að stuðla að sífellt betri lífskjörum fyrir landsmenn alla.

Horfa á ávarpið

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum