Hoppa yfir valmynd

Tvíhliða samskipti

Tvíhliða samskipti Íslands og Færeyja

Engin þjóð er Íslendingum skyldari en hin færeyska. Menning, saga og tunga Íslendinga og Færeyinga eru samtvinnuð og samskiptin hafa löngum verið náin á flestum sviðum, ein einkum á sviði menningar og viðskipta. Einstök og einlæg vinátta er milli þjóðanna.

Nánar um samvinnu Íslands og Færeyja hér að neðan undir fiskveiðisamningar, samstarfssamningar og alþjóðasamvinna. Einnig viðskipti, fríverslun og hagtölur.

Heilbrigðismál

Ágæt samvinna er í heilbrigðismálum. Færeyskir sjúklingar eru sendir til Íslands til meðferðar og íslenskir læknar koma tímabundið til Færeyja til að gera aðgerðir sem annars fara fram í Danmörku. Þá má geta þess að Færeyingar fara töluvert á eigin vegum til Íslands til augnlækninga með leysitækni. 

Ferðamál

Færeyskar ferðaskrifstofur selja ferðir til Íslands sem og flugfélagið Atlantic Airways. Ferðamannastraumur frá Færeyjum til Íslands hefur aukist töluvert og miklir möguleikar eru á því að efla ferðamennsku milli landanna enn frekar.

Fiskveiðisamningar milli Íslands og Færeyja eru endurnýjaðir árlega. Samkvæmt núgildandi samningi mega færeysk skip veitt allt að 30 þúsund lestir af loðnu við Ísland. Heimild Færeyinga til að veiða loðnu við Ísland á rætur að rekja til kreppunnar í Færeyjum í byrjun tíunda áratugarins og er endurgjaldslaus.

Færeysk skip mega árlega veiða 5.600 lestir af botnfiski samkvæmt núgildandi samningi. Þessi heimild er einnig endurgjaldslaus.

Loks er samkomulag er um að þjóðirnar fái að veiða kolmunna og norsk-íslenska síld innan lögsögu hvorrar annarrar.

Viljayfirlýsing landsstjórnar Færeyja og ríkisstjórnar Íslands (2013) 

Hinn 5. mars 2013 var undirrituð viljayfirlýsing um að efla efnahagslegt samstarf og stuðla að gagnkvæmum viðskiptum til hagsbóta fyrir báðar þjóðir. Fulltrúar landanna skulu hittast annaðhvort ár til að fjalla um atvinnu- og nýsköpunarmál.

Samstarfssamningur menntastofnana (2009)

Í apríl 2009 var gerður samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Fróðskaparseturs Færeyja. Í samningum er m.a. stefnt að því að fjölga færeyskum stúdentum í H. Í.

Samstarfssamningur milli Íslands, Færeyja og Grænlands um viðskiptamál (2017)

Reykjavík, 31. ágúst 2017. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra átti fund með Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja og Erik Jensen, sveitastjórnarráðherra Grænlands. Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir samstarfssamning milli landana en um er að ræða almennan rammasamning þar sem formfest er almennt þríhliða samstarf landanna þriggja, sem hefur hingað til að mestu verið byggt á tvíhliða samstarfi. Formfesting slíks þríhliða samstarfsvettvangs er í samræmi við vilja stjórnvalda í löndunum þremur til nánara samstarfs þeirra á milli. Í samningnum er fest í sessi að utanríkisráðherrar landanna þriggja haldi árlega samráðsfundi. Þá er komið á fót vinnuhópi embættismanna landanna þriggja, sem m.a. er ætlað að hafa yfirsýn yfir núverandi samstarf landanna, gera tillögur um aukið samstarf þeirra og vinna að því að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum milli landanna með það að markmiði að auka viðskipti.

Samstarfssamningur Íslands, Færeyja og Grænlands um menningu, menntamál og rannsóknir (2007)

Haustið 2007 var gerður samstarfssamningur milli Íslands, Færeyja og Grænlands um menningu, menntamál og rannsóknir.

NATA - North Atlantic Toursim Association (2006)

NATA (North Atlantic Tourism Association) is an organisation that promotes and supports cooperation in tourism for the West Nordic countries: Greenland, Iceland and the Faroe Islands

Vestnorræna ráðið (1985)

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þingmanna Vestur-Norðurlanda. Markmið þess eru að vinna saman að vestnorrænum hagsmunum og hugðarefnum, að vernda auðlindir og menningu landanna í Norður-Atlantshafi og efla samráð ríkis- og landstjórna Vestur-Norðurlanda, einkum í viðkvæmum og alvarlegum málum sem snerta t.d. mengun, auðlindanýtingu o.fl., að fylgja eftir samstarfi ríkis- og landstjórna vestnorrænu landanna, að efla samstarf við Norðurlandaráð og koma á framfæri vestnorrænum áhersluatriðum í norrænu samstarfi og að vera tengiliður milli þinga landanna, vestnorrænna stofnana og alþjóðlegra samtaka.

NORA - Norræna Atlantssamstarfið

Norræna Atlantssamstarfið (NORA) eru fjölþjóðleg samtök sem falla undir samstarf Norrænu Ráðherranefndarinnar um byggðastefnu. Starfssvæði NORA nær til Grænlands, Íslands, Færeyja og strandhéraða Noregs (níu norskra strandfylka frá Finnmörku í norðri til Rogalands í suðri). Landfræðileg lega, sameiginleg einkenni, viðfangsefni, saga, stofnanir svo og menningarleg bönd tengja NORA-löndin.

Norðurlandaráð (1952)

Norðurlandaráð er vettvangur þingmanna í opinberu norrænu samtarfi. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandi, Færeyjum og Grænlandi.

Norræna ráðherranefndin (1952)

Norræna ráðherranefndin er samstarfsvettvangur ríkisstjórna Norðurlanda. Norræna ráðherranefndin vinnur að sameiginlegum norrænum lausnum sem skila sýnilegum árangri fyrir alla þá sem búa á Norðurlöndum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum