Hoppa yfir valmynd
29. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Damóklesarsverðið

Hagkerfi veraldarinnar eru að kljást við dýpri og víðfeðmari efnahagsniðursveiflu en fyrri spár gerðu ráð fyrir og verðbólga hefur ekki verið hærri í fjóra áratugi. Þessi holskefla kemur á versta tíma eða í þann mund sem ríki þurftu að rétta úr kútnum eftir Covid-19 kreppuna. Hrikaleg stríðsátök í Úkraínu hafa leitt til mikillar hækkunar á orku- og matvælaverði, einmitt þar sem ríki eru helst veik fyrir. Í kjölfarið hefur myndast svokölluð lífskjarakreppa (e. Cost of living crisis) víða um heim. Samdráttur í Kína er meiri en gert var ráð fyrir, meðal annars vegna farsóttaraðgerða. Venju samkvæmt eru það fátækustu ríkin og íbúar þeirra sem helst finna fyrir því þegar róðurinn þyngist í heimsbúskapnum. Ljóst er að þessar horfur á heimsvísu munu hafa áhrif á Ísland, enda reiða fá lönd sig jafnmikið á alþjóðleg viðskipti. Hins vegar er Ísland nettó útflytjandi afurða og þar sem lífskjarakreppa heimsins grundvallast á afurðaskorti, þá verður okkar hagkerfi minna fyrir barðinu á þessum þrengingum en ella. Íslendingar verða engu að síður að sýna mikla festu í hagstjórninni til að verja lífskjörin.

 

 

 

 

 

Alþjóðahorfur hafa versnað verulega

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hægum hagvexti á heimsvísu, úr 6,0 prósentum árið 2021 í 3,2 prósent árið 2022 og 2,7 prósent árið 2023. Við fyrstu sýn gefur 2,7% hagvöxtur ekki tilefni til svartsýni. Hins vegar er samdrátturinn skarpur og ef þessi hagvaxtarspá rætist, þá er þetta minnsti hagvöxtur í tvo áratugi fyrir utan alþjóðlegu fjármálakreppuna og Covid-19. Spáð er að verðbólga á heimsvísu fari úr 4,7 prósentum árið 2021 í 8,8 prósent árið 2022 en lækki í 6,5 prósent árið 2023 og í 4,1 prósent árið 2024. Að sama skapi er þetta ein versta verðbólguspá í áratugi. Þessar versnandi horfur kalla á afar samstillt efnahagsviðbrögð á heimsvísu. Margir seðlabankar hafa brugðist við aukinni verðbólgu með því að herða taumhald peningastefnunnar með því að draga úr fé í umferð og með vaxtahækkunum. Margir hafa gefið til kynna að vextir verði hækkaðir enn frekar á næstu mánuðum. Aðgerðir seðlabanka hafa þegar höggvið skarð í fjármálamarkaði og búast má við áframhaldandi óróa á fjármálamörkuðum, ekki síður en í raunhagkerfinu. Íslendingar þekkja betur en aðrir þjóðir hvaða afleiðingar það getur haft.

 

Evrusvæðið stendur verr að vígi en Bandaríkin

Áskoranir evrusvæðisins eru mun umfangsmeiri en Bandaríkjanna sökum stríðsins í Úkraínu. Hagkerfi evrusvæðisins ofhitnaði ekki eins mikið og bandaríska hagkerfið. Það ætti að gera peningastefnuna auðveldari fyrir Seðlabanka Evrópu. Orkuverð hefur hækkað mikið á evrusvæðinu. Þessi mikla hækkun hefur gríðarleg áhrif á þróun verðbólgu og mun leiða til samdráttar á svæðinu. Að sama skapi er kaupmáttur almennings í Evrópu að dragast hratt saman, sem mun leiða til samdráttar í neyslu og fjárfestingum. Hluti Evrópu hefur verið háður Rússlandi um orkuöflun um nokkurt skeið. Þegar horft er um öxl lítur sú ákvörðun út fyrir að vera ein mestu pólitísku mistök eftir daga kalda stríðsins. Því hafa horfurnar fyrir Evrópu dökknað mikið og hefur þegar mikil áhrif á daglegt líf fólks í álfunni.

 

 

Horfur á Íslandi eru tiltölulega bjartar

Seðlabanki Íslands gerir ráð fyrir tæplega 6% hagvexti í ár sem sýnir þróttinn í hagkerfinu. Meginskýringin á því að hagvöxtur er meiri en gert var ráð fyrir er hraðari bati í ferðaþjónustu og aukin einkaneysla. Verðbólgan er byrjuð að hjaðna og komin í 9,4%, mælist næstminnst í Evrópu. Það sama á við um 12 mánaða verðbólgu, mælda með samræmdri vísitölu neysluverðs, sem er 6% hér á landi. Aðeins Sviss mælist með lægri verðbólgu. Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar, sjá mynd 1 .

Þrátt fyrir það er enn spenna á vinnumarkaði og undirliggjandi verðbólga hefur verið að aukast. Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarin misseri en vaxtahækkanir virðast hafa náð að draga úr spennu á fasteignamarkaði. Viðnámsþróttur fjármálakerfisins er góður en ljóst er að blikur eru á lofti á alþjóðlegum fjármálamálamörkuðum sem geta þrengt að fjármögnunarskilyrðum atvinnulífsins. Ferðaþjónustan hefur tekið hraðar við sér á síðustu mánuðum en gert var ráð fyrir í upphafi árs. Útlit er fyrir að fjöldi ferðamanna sem heimsækir landið í ár verði nokkuð umfram þann fjölda sem spáð var síðasta vor. Nýjasta spá Ferðamálastofu gerir ráð fyrir að um 2,3 milljónir ferðamanna heimsæki landið á næsta ári en svo virðist sem stríðið í Úkraínu hafi til þessa ekki dregið úr ferðalögum útlendinga til landsins. Staða Íslands er því góð. Hins vegar hangir Damóklesarsverð yfir hluta Evrópu. Sagan á bak við Damókles og sverðið snýr að því að ákveðið ástand feli í sér stöðuga hættu. Orðið á rætur að rekja til hins gríska Damóklesar sem var hirðmaður Díonýsíosar konungs í Sýrakúsu á fjórðu öld fyrir Krist. Hlutskipti Evrópu er að verða sams konar, þ.e. stöðug óvissa mun ríkja um hagsæld, þar til að Evrópa verður ekki lengur háð orkuöflun frá Rússlandi. Landfræðileg staða Íslands kom sér vel um miðja síðustu öld og frá þeim tíma höfum við borið gæfu til þess að byggja hér upp eitt öflugasta velferðarþjóðfélag heimsins. Það hefur meðal annars grundvallast á mikilvægi sjálfbærrar orkuöflunar.

 

Íslandi hefur vegnað vel

Íslendingar eiga að halda áfram á þeirri braut að auka orkuöryggi sem mun leiða til enn meiri sjálfbærni hagkerfisins. Sú staðreynd að raforkukerfi landsins er ekki tengt raforkukerfi Evrópu kemur sér sérstaklega vel í því árferði sem nú ríkir og bregður ljósi á mikilvægi þess að standa vörð um sjálfstæði í orkumálum. Það sjáum við til dæmis með því að líta á þróun raforkuverðs á hinum Norðurlöndunum sem hefur hækkað mikið eins og sjá má á mynd 2 .

Ísland hefur alla möguleika á að ná fullu sjálfstæði í orkumálum með aukinni framleiðslu á endurnýjanlegri orku til þess að standa undir rafvæðingu í samgöngum í lofti, láði og legi. Þrátt fyrir allt það frábæra samstarf í alþjóðamálum, sem við tölum þátt í, er það gæfuspor fyrir þjóðina að vera ekki í Evrópusambandinu. Með fullu forræði á stjórn efnahags- og peningamála sem og orkumála hefur Íslendingum vegnað vel, eins og alþjóðlegur samanburður sýnir glögglega á ýmsum sviðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum