Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. september 2009 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Ávarp Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðvahaldinn 25. september 2009

Formaður og ágætu fulltrúar á aðalfundi Samtaka fiskvinnslunnar.

Mér er það mikill heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag, nú þegar það lætur nærri að ég hef gegnt embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í eina fjóra mánuði.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig það hefði verið að gegna embætti sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ef allt væri svona eins og það var. Engir þingfundir þennan tíma, þingflokksfundir á stangli og ríkisstjórnarfundir aðeins einu sinni í viku, a.m.k. yfir hásumarið. Ég hefði getað sinnt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu óskipt. Væntanlega hefði mér gefist rúmur tími til að setja mig inn í málin og væri eflaust vel undirbúinn með mörg mál á komandi þingi. Ég hefði eflaust víða farið bæði innanlands og erlendis og hefði horft björtum augum götuna fram eftir vegi.

Tilveran hefur þó ekki verið svona. Ég ætla ekki hér að lýsa því sem á þessari þjóð hefur dunið þennan tíma, mest vegna afleiðinga bankahrunsins. Ykkur er það jafnvel kunnugt og mér. Þingið hefur starfað nær allan tímann með miklum fundarhöldum og það er einsdæmi. Þingflokkur minn hefur til viðbótar verið á nær stöðugum fundum á sama tíma og fundir ríkisstjórnarinnar eru orðnir 40. Það er skal ég segja ykkur mikið á sig leggjandi að fá að vinna með sinni þjóð til þess að komast útúr þeirri klemmu sem við erum lent í og ég get lofað ykkur því hér og nú, að ég mun leggja mig allan fram í því verki. Þetta hefur ekki verið skemmtilegt og það verður það eflaust ekki á næstunni en við munum með samstöðu og einhug ná að vinna okkur út úr þessu. Þessi vissa rekur mig áfram, annars væri ég ekki að þessu og ég veit að það sama gildir um ykkur öll líka.

Matvælalöggjöfin

Ég reikna með að þið þekkið öll sögu matvælafrumvarpsins. Ekkert bendir til annars en að það verði lagt fyrir Alþingi í fjórða skipti nú í byrjun haustþings og fer ferill þessa frumvaps fljótlega að teljast sögulegur. Það frumvarp sem nú lítur dagsins ljós verður í nær alla staði það sama og ég lagði fyrir Alþingi í sumar. Ég geri mér vel grein fyrir þýðingu þess að viðskipti með fisk og fiskafurðir gangi fyrir sig með sem auðveldustum hætti og þeim miklu hagsmundum sem í því er fólgið. Ég veit hins vegar að þið gerið ykkur grein fyrir stórum hagsmunum íslensks landbúnaðarins í þessu samhengi og hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir hann að lágmörkuð sé áhætta á matvælasviðinu, bæði gagnvart búfjársjúkdómum og gagnvart heilsu manna. Því vil ég nota þetta tækifæri og lýsa yfir sérstakri ánægju hér á þessum vettvangi hvernig hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafa virt hagsmuni landabúnaðarins og ekki gengið fram með neinni hörku í þessu máli og haft þjóðarhag að leiðarljósi. Ég á ekki von á öðru en þetta frumvarp fái hefðbundna þinglega meðferð nú í haust og hljóti samþykki af því loknu.

Flutningur á Matís

Úr því ég er staddur á þessum slóðum í ræðu minni tel ég rétt að minnast á nokkur atriði er tengjast Matís. Fyrst vil ég nefna að vonandi um næstu áramót flytur Matís í nýtt húsnæði. Nýtt húsnæði sem gerir það að verkum að allar deildir fyrirtækisins geta sameinast hér á einn stað á höfuðborgarsvæðinu. Ég geri ekki ráð fyrir öðru en það verði starfseminni mikil lyftistöng og ég segi bara gott verður örugglega betra! Það er ekki að ástæðulausu að ég fagna. Á þessum tímum sem við lifum núna er þýðing Matís alveg gríðarleg fyrir þetta þjóðfélag og fyrir þær atvinnugreinar sem hún þjónar. Ég nefni hérna nokkur dæmi:

Matís kemur að bættri nýtingu á aukahráefni – hráefni til lýsisvinnslu, aukin nýting á hráefni frá frystitogurum.

Matís vinnur að meiri framleiðslu á hágæða próteinum og lífvirkum afurðum úr sjávarfangi.

Matís vinnur að bættir meðhöndlun afla og tryggir að slök gæði hráefni komi ekki í veg fyrir að hægt verði að ná sem mestu verðmætum úr hráefninu.

Matís hefur komið víða að því að bæta vinnsluferla og auka vinnslunýtingu og bæta verðmætasköpunina meira í greininni, með betri sóknar- og vinnslustýringu.

Að mínu mati er Matís öflug stofnun í rannsóknum og nýsköpun sem við erum stolt af.

Til viðbótar vildi ég nefna hér AVS, en sjóðurinn skilar miklu í samstarfi og auknum verðmætum á Íslandi. Hann er mikilvægur í ljósi þess að þetta er eini sjóðurinn sem er sérmerktur sjávarútvegi og fyrirtæki og rannsóknaraðilar geta sótt í til að fjármagna verkefni sem auka verðmæti sjávarfangs. Einnig er mikilvægt að sjávarútvegurinn á beina þátttöku í vali á verkefnum. AVS hefur skipt lykilmáli við fjármögnun rannsókna og þróunarverkefna á þessu sviði á undanförnum árum og skiptir miklu máli við frekari framþróun.

Ég hef gert mér tíðrætt um Matís og tækifæri í rannsóknum og þróun. Það leiðir mig að því sem ég tel eitt brýnasta verkefnið sem við þurfum að kljást við og það er ímynd þeirrar atvinnugreinar sem við vinnum við.

Ég þreytist ekki á að segja frá könnuninni í framhaldsskólum sem Háskólinn á Akureyri gerði, þar sem langflestir nemendurnur voru á því að sjávarútvegur, landbúnaður og ferðaþjónusta væru þær atvinnugreinar sem Ísland yrði að reiða sig mest á í náinni framtíð. Sjávarútvegurinn auðvitað í efsta sæti enda skynug ungmenni. Þegar þau voru síðan spurð við hvaða grein þau vildu vinna þá svöruðu aðeins 2% að þau vildu vinna við sjávarútveg. Þetta er það alvarlega í stöðunni og þetta þurfum við öll að taka höndum saman um að breyta. Til þess þurfum við að bæta menntakefið og gera störf sem boðið er uppá meira aðlaðandi, en við þurfum líka öll að taka höndum saman um að bæta ímynd þessarar greinar. Það er mín sannfæring og ég skora á ykkur að taka nú höndum saman um það verkefni. Ég veit við getum það svo vel ef við vinnum saman.

Ferskur fiskur

Eitt af þeim verkefnum sem tekið hefur drjúgan tíma í ráðuneytinu eru málefni ferska fisksins sem fluttur er út óunnin. Þessi útflutningur hófst fyrir áratugum og hefur verið umdeildur allar götur síðan og hann er það enn. Mér sýnist málið vera í nákvæmlega sömu stöðu og það hefur yfirleitt verið og jafnvægi vantar. Þau úrræði sem löggjafinn hefur sett fram til að tryggja jafnvægi eru ekki að virka sem skyldi, það þó að ýmislegt hafi verið reynt til þess að slípa af vankanta. Engum blöðum er um það að fletta, að gámaútflutningurinn getur verið ábatasamur fyrir þá sem hann stunda og hann veltir umtalsverðum gjaldeyristekjum inn í landið, sem full þörf er á og í nokkrum byggðalögum hafa verið búnar til háþróaðir ferlar með sérhæfðum skipum til þess að nýta þennan möguleika til fullnustu. Eftir sem áður eru margir innlendir fiskkaupendur og vinnslur mjög óánægð með gang mála og telja að ekki ríki jafnræði hvað varðar aðgang að þessum fiski.

Í stjórnaryfirlýsingunni er eftirfarandi tiltekið: Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.

Umboð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherrans er því alveg ljós í þessu máli. Honum ber að ná fram jafnvægi milli innlendra og erlendra fiskkaupenda og að knýja á um frekari fullvinnslu hér innanlands. Ég segi það samt hér, að ég læt ekki þvinga mig til einhverra lausna af hvorugum hagsmunahópnum.

Á mínum vegum var í gær haldinn fjölmennur fundur hagsmunaaðila úr öllum áttum um þennan útflutning. Fundurinn var málefnalegur og öllum gafst tækifæri á að láta í ljós sína skoðun og vil ég nota tækifærið hér og þakka öllum sem að þessu komu. Á þessari stundu ætla ég ekki að tjá mig frekar um hvað gert verði. Tiltek þó að takist atvinnulífinu sjálfu að setja fram ásættanlegar lausnir, þá verður hlustað á það.

ESB

Margir þingmenn hafa sagt í umræðunni um aðild að ESB, að það að senda inn formlega umsókn um aðild sé ein stærsta ákvörðun Íslandssögunnar. Ég vil að það komi skýrt fram að við afgreiðslu á samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og Samfylkingar að ég studdi ekki þau áform að sækja um aðild og lét bóka það í þingflokknum og að ég áskyldi mér rétt til að fylgja sannfæringu minni í þeim efnum við afgreiðslu málsins. Þennan sama fyrirvara hafði ég á þegar málið var afgreitt úr ríkisstjórn.

Ég tók einnig fram að þegar aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi og farið verði í aðildarviðræður muni ég leggja mig allan fram fyrir hönd míns ráðuneytis í að halda sem best á málum til að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar í þeim samningum. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þeir málflokkar sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið fer með, grunnatvinnuvegir þjóðarinnar, eiga hvað mest í húfi í þeim samningum. Ég mun því gera það sem í mínu valdi stendur til að ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og stofnanir þess geri sig mjög gildandi í samningaferlinu öllu og þannig verði hagsmunir þessara atvinnugreina best tryggðir.

Nú er mitt ráðuneyti og stofnanir þess önnum kafið við að svara spurningum frá ESB. Mér er sagt að milli 40-50 manns hafi komið að þessari vinnu. Er af hálfu ráðuneytisins kappkostað að sú vinna sé vönduð sem kostur er.

Spurningarnar sem bárust voru á ensku og til þess ætlast að svörin bærust ESB einnig á ensku.

Fyrir nokkru síðan leituðu Bændasamtök Íslands eftir því við utanríkisráðuneytið að þessar spurningar og svörin við þeim yrðu þýdd á íslenska tungu. ”Samtökin leggja áherslu á að nauðsynleg og opinská umræða fari fram líkt og kveðið er á um í nefndaráliti með þingsályktun Alþingis um aðildar umsókn að ESB.”

Mér býður í grun að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hugsi á sömu nótum. Nú hefur svar borist frá utanríkisráðuneytinu þar sem erindi Bændasamtakanna er hafnað. Er það gert m.a. með þeim rökum að kostnaður sé of mikil. Þýðing spurningalistanna og svör við þeim geti kostað allt að 10 milljónum króna. Hér er að mínu mati um grundvallaratriði að ræða. Íslenska er þjóðtunga okkar þótt ekki sé sérstaklega kveðið á um það í stjórnarskránni.

Ég vil lýsa því hér yfir að ég er sammála Bændasamtökunum og öðrum þeim sem telja nauðsynlegt að bæði spurningar og svör og önnur þau málefnalegu gögn sem lúta að umsókninni um aðild að Evrópusambandinu verði birt samhliða á íslensku. Ég tók þetta mál upp í ríkisstjórn í morgun og taldi eðlilegt að þessi tilhögun gilti samræmt fyrir öll ráðuneyti.. Málið verður að minni ósk rætt frekar á ríkisstjórnarfundi n.k. þriðjudag.

Sjávarútvegur

Flest álitaefni fiskveiðistjórnuarkerfisins í dag má rekja til ákvarðana sem teknar hafa verið fyrir margt löngu. Við bætist vandamál sem sköpuðust í hinu sýkta hagkerfi útrásarvíkinganna og þeirra sem studdu það.

Mín skoðun hefur verið sú að við eigum að stefna að sjálfbærni á þessu sviði sem öðrum og ég býst ekki við að neinn sé mér mjög ósammála í þeim efnum. Sjálfbær fiskveiðistjórn stendur á þremur stoðum. Í fyrsta lagi hagkvæmni, í öðru lagi líffræðilegu jafnvægi vistkerfanna, þrátt fyrir nýtingu, og í þriðja lagi samfélagslegri ábyrgð þeirra sem taka þátt og rétti fólksins í byggðunum til afkomu og öryggis. Þannig sé ég þetta og þetta er mitt leiðarljós. Auðvitað eiga sér stað málamiðlanir en stefna mín er mjög skýr í þessum efnum.

Ég veit að hagsmunaaðilar í sjávarútvegi átta sig á því að hér er ekki hægt að halda úti fiskveiðistjórnuarkerfi sem ekki er í sátt við þjóðina. Ég held reynar að þeir geri það því við erum ein þjóð. Ég átta mig á því að mörgum þeirra finnst þeir séu hafðir fyrir rangri sök, en þeir geta ekki horft framhjá því að það ríkir engin sátt meðal þjóðarinnar um núverandi kerfi og því verður að taka alvarlega hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Þeir sem tala hæst um galla núverandi kerfis benda á óréttlætið sem í því er fólgið. Þeir telja að ekki hafi verið sýnd næg samfélagsleg ábyrgð undanfarin ár af þeim sem hafa þessa miklu auðlind þjóðarinnar í hendi sér. Þeir hafa ýmislegt til síns máls en á stundum er skotið yfir markið.

Eins og þið þekkið þá ákvað ég á grundvelli samstarfsyfirlýsingar þessarar ríkisstjórnar að setja á fót vinnuhóp til þess að fara yfir stóru drættina og álitaefnin í fiskveiðistjórnunarkerfinu og koma með tillögur til úrbóta. Megin markmiðið með skipan þessa vinnuhóps er að freista þess að ná fram tillögum sem skapa meiri sátt um það meðal þjóðarinnar.

Vinnuhópurinn er fjölmennur og það mun því reyna mjög á hann til að ná samkomulagi:

Eina bindingin af minni hálfu sem sjávarútvegsráðherra er að greininni verði sköpuð góð rekstrarskilyrði til lengri tíma í sátt við þjóðina!

Vil faglega vinnu fyrst og fremst sem unnin verði fordómalaust.

Treysti tilnefndum aðilum að leggja sig alla fram.

Mjög mikil ábyrgð lögð á herðar þeirra – þeir vita hvað er undir – þeir verða að ná saman um skynsamlegar tillögur.

Vinnuhópurinn á að leggja fram valkosti og ég er því ekki að biðja um 13 sérálit og ég vona því að menn taki tillit til skoðana hvers annars. Eftir að vinnuhópur hefur skilað af sér tek ég greinargerð hans til skoðunar.

Ég vil tiltaka hér undir lokin á þessari umfjöllun minni um fiskveiðistjórnunarkerfið almennt, að ég hef fyrir löngu ákveðið að gefa vinnuhópnum það svigrúm sem hann þarf.

Brýnar aðgerðir

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er mér ætlað að vinna að nokkrum brýnum aðgerðum í sjávarútvegi. Þær eru þessar helstar:

  1. Knýja á um frekari fullvinnslu afla hérlendis með því m.a. að skoða hóflegt útflutningsálag á fisk og/eða að óunninn afli verði settur á innlendan markað.
  2. Takmarka framsal á aflaheimildum, auka veiðiskyldu og endurskoða tilfærslur á heimildum milli ára.
  3. Vernda grunnslóð. Kannaðir verði möguleikar þess að veiðar afkastamikilla skipa á grunnslóð og inn á fjörðum verði takmarkaðar frá því sem nú er með það að markmiði að treysta grunnslóðina sem veiðislóð fyrir smærri báta og umhverfisvænni veiði.
  4. Skipa ráðgefandi hópa útgerðarmanna og sjómanna varðandi veiðiráðgjöf og nýtingu sjávarauðlinda og ástand í lífríki sjávar.
  5. Heimila frjálsar handfæraveiðar smábáta yfir sumarmánuðina.

Meirihlutinn af þessum verkefnum er komið í gang. Ég er að láta skoða sérstaklega mál er tengjast verndun á grunnslóð í Skagafirði, línuívilnun og frekari þróun þess kerfis, stjórnun skötuselsveiða og veiða á úthafsrækju og sérstök tæknilega atriði varðandi ýsuveiðar svo eitthvað sé nefnt. Í þessu sambandi get ég ekki annað en nefnt strandveiðarnar líka. Þær gengu mjög vel að mínu mati. nú verður farið yfir reynsluna af þeim og síðan lagt fram nýtt frumvarp um þær á yfirstandandi þingi. Mín skoðun er að menn verða að sætta sig við að í fiskveiðistjónunarkerfinu verði að vera pláss fyrir sem flesta. Þess vegna er þessi möguleiki sem strandveiðarnar gefa nauðsynlegur. Standveiðarnar eru, hvað sem menn segja, þáttur í því að þjóðin nái betur sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum