Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. nóvember 2004 MatvælaráðuneytiðValgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2004-2006

Evrópuverkefnið "Konur í atvinnurekstri og landbúnaði".

Góðir gestir,

Ég þakka fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag.

Það er von mín að þátttaka Íslands í þessu samstarfsverkefni fimm þjóða, hvetji konur til aukinnar þátttöku í atvinnurekstri og með samstilltu átaki stoðkerfisins finnist leiðir til þess. Ég vil sérstaklega Norðmönnum frumkvæðið.

Það er mikilvægt að bera kennsl á hindranir sem helst verða á vegi kvenna sem reka eigin fyrirtæki og finna leiðir til að aðstoða og styðja konur sem sjá atvinnutækifæri í eigin viðskiptahugmyndum.

Við gerð þeirra skýrslu sem unnin hefur verið af Byggðastofnun var leitað til kvenna á Íslandi sem hafa reynslu og þekkingu á því að reka eigin fyrirtæki og mér er kunnugt um að nokkrar þeirra hittust í gær og miðluðu hver annari af þekkingu sinni.

Tilgangur fundarins í dag er að skapa umræðuvettvang þar sem fjallað verður um á á hvern hátt hið opinbera stoðkerfi atvinnulífsins, fjármálastofnanir o.fl. geta með auknu samstarfi virkjað menntun, hæfni og þekkingu kvenna til sóknar.

Þrátt fyrir tölur um yfirburðahlutfall karla í efstu stigum atvinnulífsins er ekki hægt að líta fram hjá því að konur hafa verið að hasla sér völl í atvinnulífinu með góðum árangri. Konur eru fjölmennar í næst efstu stigum pýramídans og þess verður sjálfsagt ekki langt að bíða að þær komist til æðstu metorða.

Þó ekki sé hægt að segja með nákvæmni hvernig þjóðfélagið mun þróast á næstu árum og áratugum er víst að aukin menntun kvenna mun leiða til aukinnar þátttöku þeirra í atvinnulífinu. Menntunarstig karla er hærra en kvenna yfir heildina en konur eru í meirihluta í langflestum greinum háskólanáms í dag og því ekki langt að bíða þess að menntunarstig þeirra verði hærra en karla.

Ég skipaði á dögunum nefnd sem hefur það hlutverk að skoða hvernig auka megi tækifæri kvenna í forystu íslenskra fyrirtækja. Nefndin skal meðal annars kanna hvort önnur lönd hafi gripið til ráðstafana í þessu skyni og bera saman stöðu kvenna í atvinnulífinu hér á landi og í nágrannaríkjunum. Ég vænti mikils af starfi nefndarinnar og tel að við séum á þröskuldi þess að fjölga mjög konum í forystu íslenskra fyrirtækja.

Um leið og ég vona að fundurinn verði árangursríkur og margar góðar hugmyndir líti dagsins ljós, vil ég þakka Byggðastofnun og Sigríði Elínu Þórðardóttur, fyrir vinnu við gerð skýrslunnar, ráðgjafahópnum fyrir þeirra aðstoð. En ekki síst þakka ég ykkur ágætu gestir fyrir að sýna málinu áhuga og koma hingað í dagt.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum