Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 1998 MatvælaráðuneytiðFinnur Ingólfsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 1996-1999

Ræða á morgunverðarfundi Verslunarráðs Íslands


I.
Ágætu fundarmenn.
Fjárfestingar í atvinnurekstri hafa verið allt of litlar á undanförnum árum. Þetta má m.a. lesa úr samanburði á samkeppnisstöðu okkar við aðrar þjóðir. Þar kemur m.a. fram að í alþjóðavæðingu viðskipta lendum við í 39. sæti af 46. Þrátt fyrir að í þessum samanburði sé ekki búið að taka tillit til nýlegra stóriðjusamninga er engu að síður ljóst að betur þarf að gera. Meðal annars skortir mjög á að árangur sé viðunandi í erlendri fjárfestingu á örðrum sviðum en stóriðju og fjárfestingar íslenskra fyrirtækja erlendis eru einnig allt of litlar.

Það vekur því verðskuldaða athygli þegar við náum árangri á þessum sviðum. Nýlegt dæmi er samningur Íslenskrar erfðagreiningar við Hoffman-La Roche sem staðfestir að við eigum góða möguleika á erlendum fjárfestingum á öðrum sviðum en stóriðju.

Einnig vil ég nefna samning Hugvits og IBM um dreifingu á afurðum Hugvits á mörkuðum í 120 löndum í þrem heimsálfum, sem er dæmi um mikilvægan útflutning hátækniafurða sem við þurfum að huga meira að í framtíðinni.

Til þess að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja þarf m.a. að huga að skattkerfisbreytingum. Markmið slíkra breytinga eru m.a.:

1. Greiða fyrir fjárfestingum erlendra aðila hér á landi. Fjárfesting erlendara aðila er mikilvægur þáttur í eflingu samkeppnisstöðu okkar. Með erlendum fjárfestingum skapast ekki eingöngu fjölmörg ný eftirsótt störf, - heldur er ekki síður mikilvægt að með þeim flyst ný tækni, þekking og hæfni inn í landið sem skapar forsendur til enn frekari afleiddrar nýsköpunar.

2. Hvetja til fjárfestinga íslenskra fyrirtækja í útlöndum. Reynslan bendir til að varanleg þátttaka í atvinnurekstri erlendis, meðal annars með beinni fjárfestingu, sé sú leið sem í raun gefur bestan árangur. Hún eykur ekki aðeins umsvif fyrirtækjanna og bætir afkomu þeirra, heldur skapar hún einnig ný störf hér á landi og leiðir til aukins útflutnings á vöru og þjónustu.

3. Auka útflutningsverðmæti íslenskra afurða, auka útflutningstekjur og bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja sem stunda útflutning.

II.
Almenna stefna stjórnvalda er að erlend fyrirtæki skuli njóta sömu kjara og innlend fyrirtæki, þ.e. að ákvæði skattalaga skuli gagnvart þeim gilda óbreytt. Þegar um hefur verið að ræða mjög stórar fjárfestingar sem verulegu máli hafa skipt fyrir íslenskt þjóðarbú hefur verið vikið frá þessu með sérstökum samningum. Með mjög stórum fjárfestingum á ég við samninga um stóriðju, eða fjárfestingar sem eru meiri en t.d. 100 m.USD.

Í fjárfestingarsamningi milli ríkisstjórnar Íslands og Columbia Ventures um verksmiðju Norðuráls á Grundartanga koma fram nokkrar breytingar á skattskyldu félagsins sem lýsa vel þeim megináherslum sem ég tel að innleiða þurfi í íslensk skattalög almennt.
  • Í fyrsta lagi varð að samkomulagi að ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem heimila 7% frádrátt af nafnvirði hlutafjár frá skattskyldum tekjum , skuli ekki eiga við (8. tl. 1. mgr. laga nr. 75/1981).

Með þessu vinnst það að ekki er skattalegt hagræði fyrir fyrirtækið að greiða 7% af nafnverði hlutafjár út til eigenda, - þ.e. greiða þetta fé út úr landinu. Jafnframt styrkir það stöðu fyrirtækisins að halda sem mestu af eigin fé inni í rekstrinum og efla þar með fjárfestingargetu þess.
  • Í öðru lagi varð að samkomulagi að félaginu er gert heimilt að draga frá skattskyldum tekjum á hverju ári og færa á sérstakan fjárfestingarreikning fjárhæð sem nemur 4% af nafnvirði hlutafjár. Fé á reikningnum sem notað er til fjárfestingar í fyrnanlegum eignum innan sex ára frá því að það er fært á reikninginn, skal bætt við skattskyldar tekju félagsins á árinu sem fjárfestingin á sér stað.

Þetta atriði þýðir að til móts við þá 7% frádráttarheimild sem félagið afsalaði sér til að lækka skattskyldar tekjur sínar fær það nú nokkra umbun með því að setja 4% af sama stofni á sérstakan fjárfestingareikning. Hér er um að ræða aðgerð sem er algerlega gagnvirk 7%-reglunni. 7%-reglan hvatti til flutnings fjármagns úr landi og til lakari eiginfjárstöðu til frekari fjárfestinga. 4%-fjárfestingarreglan sem hér um ræðir hefur gagnstæð áhrif.
  • Ljóst er að framangreind 4% fjárfestingarregla vinnur ekki að fullu upp það óhagræði sem félagið varð fyrir með því að missa 7% frádráttarheimildina. Til móts við það var komið með tveim minniháttar atriðum auk þess þriðja og seinasta sem ég vil minnast á úr fjárfestingarsamningnum um Norðurál. Það var gert með því að félagið er undanþegið eignarskatti (skv. 1. mgr. 84. gr. l. nr. 75/1981) og sérstökum eignarskatti (skv. 3. gr. l. nr. 83/1989).


Eins og ég minntist á hér áðan koma fram í þessum breytingum þrjú þeirra meginatriða sem ég tel rétt að koma inn í íslensk skattalög. Hér á eftir koma síðan þrjú atriði til viðbótar.

III.
Eins og fram hefur komið gildir hér á landi sú regla að arðgreiðsla upp að 7% af nafnvirði hlutafjár er skattfrjáls hjá því fyrirtæki sem greiðir arðinn út. Þessi 7% frádráttarregla er sennilega sér-íslenskt ákvæði sem í sjálfu sér er auk þess ófullnægjandi þar sem arðsemiskrafa er almennt hærri. Víðast hvar erlendis er almenna reglan sú, að arður er ekki frádráttarbær hjá því félagi sem arðinn greiðir. Við útgreiðslu arðs til hluthafa verður arðurinn auk þess ekki skattskyldur að nýju ef það er félag sem á hlutinn.

Hér á landi er þessu svo farið að arður í hendi hluthafa er skattskyldur. Arður innan ákveðinna marka fer í 10% skattþrep hjá einstaklingum og í 33% skattþrep hjá fyrirtækjum.

Þessi mismunur í skattlagningu þýðir að íslenskt félag sem fjárfestir erlendis þarf fyrst að greiða skatt af arði dótturfélagsins og við flutning arðsins til Íslands er hann í annað sinn skattlagður (33%) hjá íslenska félaginu.
  • Einfaldast er að leiðrétta þetta misræmi með viðbótarákvæði í tekjuskattslög (nr. 75/1981, t.d. 31. gr.), þar sem íslenskt fyrirtæki sem fjárfesta í erlendum félögum fengju heimild til að móttaka arð frá erlendu dótturfélagi án þess að arðurinn myndi tekjuskattsstofn hjá þeim á Íslandi. Réttmæti þessa byggist á því að arðurinn hafi þegar verið skattlagður hjá dótturfélaginu.
  • Í þessu getur falist nokkuð ósamræmi á milli íslenskra félaga eftir því hvort þau fjárfesta erlendis eða hér heima. (Þetta ósamræmi felst í vægi mismunar þess að geta annarsvegar dregið 7% arðgreiðslu nafnverðs frá tekjuskattsstofni og hinsvegar á lækkun heildarskattbyrgðar sem felst í hærri tekjuskattsstofni dótturfélags og afnámi skattgreiðslu yfirfærðs hagnaðar.)
  • Hjá þessu ósamræmi er hægt að komast með því að afnema 7% frádráttarheimildina með öllu. Þetta leiðir til þess að arðurinn verður að fullu skattlagður hjá dótturfyrirtækinu erlendis. Jafnframt verði sú almenna regla tekin upp að arður sem greiddur er af hagnaði, sem að fullu hefur verið skattlagður í einu félagi, skuli ekki skattlagður að nýju hjá móttökufyrirtækinu.

IV.
Þau atriði sem að framan er getið eru þau sem ég met veigamest að lagfæra nú. Mörg önnur atriði koma einnig til álita. Af þeim vil ég helst nefna að fyrirtæki fái heimild til þess að fresta tekjufærslu söluhagnaðar af sölu hlutabréfa og við skipti á hlutabréfum á milli fyrirtækja. Í þessu felst aðeins að sömu reglur verði látnar gilda um sölu og skipti hlutabréfa hjá lögaðilum og gilda hjá einstaklingum.

Af öðrum breytingum á skattalögunum eru m.a. breytingar á gjaldfærslu rannsóknar- og þróunar– og markaðskostnaðar, sem stuðlað geta að eflingu nýsköpunar í útflutningsiðnaði, einkum í hátækniiðnaði. Um þetta og fleiri atriði mun ég ræða við síðara tækifæri þegar skoðun á þeim lýkur í ráðuneytinu.

V.
Í samantekt vil ég draga fram þessi atriði sem megininntak máls míns:
  • Skattkerfisbreytingar eiga ekki að leiða til aukinnar skattbyrði fyrirtækja.
  • Skattlagning þarf að vera hvetjandi til að byggja upp eiginfjárstöðu fyrirtækja og efla þau til frekari fjárfestingar.
  • Afnema á heimild til 7 % frádráttar af nafnvirði hlutafjár gegn öðrum skattalegum aðgerðum.
  • Á móti þarf að breyta reglum íslensku tekjuskattslaganna í þá átt að gera arð sem fer frá því félagi sem fjárfest er í til félags sem á hlutinn, skattfrjálsan hjá því síðarnefnda. Með þessari leið er einnig fjárfesting íslenskra félaga á Íslandi gerð auðveldari.
  • Til þess að rétta af þann halla sem vera kann vegna afnáms 7% reglunnar kemur til greina að lækka eignarskatt á fyrirtæki eða að lækka tekjuskattshlutfallið til að skattbyrði verði óbreytt.
  • Eðlilegt er að sömu reglur gildi fyrir fyrirtæki og einstaklinga um sölu og skipti hlutabréfa.
  • Athuga þarf hvata til að efla nýsköpun í atvinnulífinu, t.d. með breytingum á gjaldfærslu rannsóknar- og þróunar– og markaðskostnaðar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum