Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. desember 1999 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Áramótagrein forsætisráðherra í Morgunblaðinu 1999

Áramótagrein forsætisráðherra
í Morgunblaðinu 31. desember 1999


Það segir óneitanlega nokkra sögu um breytingar í henni veröld að stór hluti okkar jarðarbúa skuli hafa sameinast um að taka forskot á aldamótasæluna. Við erum í hrifningarvímu yfir því að vera uppi þegar talan tveir trónar loks fremst í ártalinu. Og við látum auðvitað allar röksemdir um eiginleg árþúsunda- og aldamót lönd og leið og segjum í alþjóðlegum kór: Nú er kominn tími til að kætast.

Eitt sinn var Jón Þorláksson forsætisráðherra spurður hvenær bylting gæti talist lögleg aðgerð, og það stóð ekki á svari: "Þegar hún lukkast," sagði Jón. Og nú hefur með óformlegri alþjóðaatkvæðagreiðslu verið ákveðið að tuttugasta öldin skuli vera ári styttri en hinar fyrri og næsta öld vísast ári lengri en þær sem á eftir koma. Vitrustu menn og ekki síður þeir sérvitrustu geta rökrætt rétta tímasetningu aldamótanna. En sú umræða mun engu breyta. Niðurstaðan er fengin. Hún kom að utan og kemur ekkert við röksemdum eða staðreyndum. Æ fleiri þættir í þjóðlífi okkar og tilveru allri lúta nú orðið samskonar lögmáli. Oft er það til ills og að minnsta kosti iðulega til mikils óþarfa. En hin dæmin eru einnig til þar sem þessi óboðna fjarstýring hefur verið til góðs og flýtt fyrir framförum hér á landi. Spurningin um einangrun íslensku þjóðarinnar hér norður í hafi í alþjóðlegum samskiptum er í raun löngu farin hjá. Að hluta til var henni svarað með ákvörðunum sem íslensk stjórnvöld tóku, og að hluta til svaraði spurningin sér sjálf og að hluta til var hún orðin úrelt og þurfti ekki svar. Það er ef til vill þessara tímamóta tákn að þjóðirnar eru nú svo háðar sameiginlegri niðurstöðu, réttri eða rangri, að þær fá ekki við neitt ráðið. Án þess að gangast við óhæfilegri þjóðrembu er óhætt að viðurkenna, að Íslendingar þykjast síst lakari að sameiginlegum gáfum en aðrar þjóðir, og er þá varlega talað. En jafnvel þótt allt það hyggjuvit hefði verið notað til að rökstyðja að þessi áramót séu ekkert merkilegri en önnur, þá hefðum við ekki komist upp með það. Við fylgjum blátt áfram hinum alþjóðlega straumi.

I

Tuttugasta öldin hefur verið öld stórbrotinna framfara. Um það verður ekki deilt. En þær eru ekki einu einkenni hennar. Átök og skelfileg voðaverk auk tveggja heimstyrjalda setja þessa öld á sérstakan reit í sögunni. Tveir mestu fjöldamorðingar sem sagan kann að greina frá fóru mikinn á þessari öld. Barátta, stundum næsta ósýnileg, stundum afar hörð, á milli lýðræðis og einræðis, átti sér stað nærri alla öldina og lauk með hruni kommúnismans og Sovétríkjanna. Sú fjöldakúgun í nafni félagshyggju fékk makleg málagjöld. Nú erum við flest búin að gleyma hve litlu munaði að úrslitin yrðu önnur, en lýðræðishugsjónin hafði sigur og þess vegna ríkir nú meira frelsi og nánari og fölskvalausari samvinna á milli þjóða en nokkru sinni áður í sögunni, ekki síst hér í hinum vestræna heimi. En þó stendur lýðræðið enn víða völtum fótum, jafnvel hér í Evrópu. Í bakgarði Atlantshafsbandalagsins hafa á undanförnum árum orðið einhverjar hræðilegustu stríðshörmungar í Evrópu, ef frá eru taldar styrjaldirnar tvær sem áður voru nefndar. Og nú þessa dagana horfum við upp á Rússa ganga langt út fyrir þau mörk sem réttlæta refsiaðgerðir við hermdarverkum. Alþjóðlegir samningar sem Rússar eru aðilar að eru margbrotnir og traðkað er á mannréttindum.

Ég þykist marga athyglisverða fundi hafa sótt um dagana, en sennilega verður leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsríkjanna í Washington síðastliðið vor einn sá minnistæðasti. Þar var forystumönnum Atlantshafsbandalagsins stefnt til veglegs fagnaðar. Tilefnið var ærið, fimmtíu ára samvinna ríkja Atlantshafsbandalagsins, sem tryggt hafði öryggi þeirra. En viðfangsefnið varð annað en að var stefnt. Vissulega var horft til framtíðar. Öryggismálastefna bandalagsins var endurskoðuð í þeim tilgangi að tryggja öryggi og stöðugleika í Evrópu. En atburðirnir í Kósovó yfirskyggðu allt annað. Atlantshafsbandalagið, friðarbandalag í fimmtíu ár, stóð í mestu hernaðarátökum á ferli sínum. Það lá undir þungri gagnrýni fyrir aðgerðir utan vettvangs bandalagsins, ekki síst fyrir árás á sjálfstætt ríki sem ekki hefði ráðist á bandalagið. Sú gagnrýni var ekki með öllu ósanngjörn. En spurningin var hvort Atlantshafsbandalagið hefði afl og samheldni til að standa vörð um forsendur friðar hið næsta sér. Ég er ekki í vafa um það að hefði Atlantshafsbandalagið brugðist á þessari ögurstund, hefði það glatað allri tiltrú. Ófriðurinn hefði breiðst út og úr því orðið ógnarbál eins og áður hefur kviknað á þessum slóðum. Samheldnin réði úrslitum, árangur náðist og bandalagið gegnir áfram lykilhlutverki í Evrópu. Ísland, vopnlausa landið í varnarbandalaginu, studdi eindregið aðgerðir þess í Kósovó og bar fulla ábyrgð á þeim, eins og hin bandalagsríkin. Höfum við Íslendingar síðan lagt okkar af mörkum til þess að bandalagið geti áfram tryggt frið og stöðugleika í Evrópu, auðvitað með þeim hætti sem hentar vopnlausu ríki.

Mikilvægi Atlantshafsbandalagsins fyrir öryggi Evrópu ræðst fyrst og síðast af tengslunum við Norður-Ameríku. Lega Íslands skiptir þar miklu. Á síðustu árum hefur Evrópusambandið stefnt að auknu hlutverki í öryggis- og varnarmálum. Ísland styður þessa stefnu, en forsendan hlýtur að vera sú að hún hvorki veiki Atlantshafsbandalagið né spilli fyrir samstarfinu við Bandaríkin og Kanada. Og auðvitað er óþolandi ef sú þróun leiðir til þess að ríki sem eru utan Atlantshafsbandalagsins en innan Evrópusambandsins geti haft áhrif á ákvarðanir bandalagsins umfram þau ríki sem þar axla beina ábyrgð. Utanríkisráðherra hefur haldið stefnu Íslands fram af mikilli festu og átt góða samvinnu við ráðherra annarra ríkja með svipaða hagsmuni, svo sem Noregs, Póllands, Tyrklands, Tékklands og Ungverjalands.

Margir mundu ætla að hið fámenna íslenska ríki kviði aukinni alþjóðavæðingu í veröldinni. Svo er þó ekki. Ástæðan er sú að Íslandi er mikilvægt að eiga greiðan aðgang að mörkuðum. Við erum útflutningsþjóð. Frelsi í heimsviðskiptum er til þess fallið að draga úr muninum á aðstöðu stórra og smárra þjóða. Hagkerfin opnast hvert af öðru og skapa framsækinni þjóð, vel menntaðri og upplitsdjarfri, fjölmörg tækifæri. En það er skilyrði að við rekum ekki okkar þjóðarbúskap í ósamræmi við það sem almennt tíðkast í heiminum, svo sem gert var um áratuga skeið. Við núverandi aðstæður mundi slík stefna hafa alvarleg áhrif á samkeppnisstöðu þjóðarinnar og skerða lífskjör hennar. Þjóðir njóta ekki til fulls ávaxtanna af auknu alþjóðlegu samstarfi nema efnahagsramminn og þær leikreglur sem innan hans gilda, séu heilbrigðar og skýrar. Þetta er einfalt skilyrði, en ræður úrslitum um hvort hér verði áframhaldandi hagvöxtur, aukin fjárfesting en ekki fjármagnsflótti.

Stundum er reynt að ala á ótta um að þjóðin kunni að einangrast þar sem Ísland hefur ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu. Í rauninni er þessi kenning löngu úrelt. Hitt er rétt að aldrei er hægt að útiloka Evrópusambandsaðild um ókomna tíð. Því er jákvætt að umræða um þessi mál heldur áfram, jafnframt því sem Evrópusambandið sjálft þróast og breytist. En alþjóðavæðingin sem áður var rædd, felur í raun í sér að einangrun hefur ekki lengur haldbæra merkingu í utanríkismálum og á því ekki erindi í umræðu um þau. Við höfum í þessu máli sem öðrum aðeins eina skyldu. Hún er að setja langtímahagsmuni íslensku þjóðarinnar í öndvegi og annað ekki. Þegar þeir hagsmunir eru vegnir og metnir nú, kemur á daginn að hverfandi kostnaður er við að standa utan við Evrópusambandið, en á hinn bóginn blasir við, að aðild yrði dýru verði keypt.

Íslendingar vita að forsenda hagkvæms sjávarútvegs er að frjálsræði og samkeppni ríki, og markaðsaðstæður séu eðlilegar. Ofveiði á ýmsum fiskistofnum víða um heim skýrist ekki síst af gríðarlegum ríkisstyrkjum í sjávarútvegi sem leitt hafa til offjárfestinga í fiskiskipaflotanum. Ísland hefur beitt sér fyrir afnámi ríkisstyrkja í sjávarútvegi. Sú barátta á ennþá langt í land, en töluverður árangur hefur þó náðst og öflugir bandamenn hafa gengið til liðs við okkar málstað. En andstaðan er enn mjög mikil, ekki síst frá Evrópusambandinu.

II

Við Íslendingar höfum ekki alltaf tekið nægjanlegt tillit til umhverfis og náttúru. Slík framganga kemur mönnum í koll fyrr eða síðar. En nú eru allir Íslendingar umhverfisverndarmenn. Umhverfisverndin ein getur á hinn bóginn aldrei sagt alla söguna. Forsenda lífs í þessu landi er skynsamleg nýting náttúrugæða. Alls staðar er aðgátar þörf í nærveru náttúru svo að leitað sé í orðafar mesta virkjunarmanns þessarar aldar. Umræða um fyrirhugaða Fljótsdalsvirkjun hefur því miður farið út í ómálefnaleg áróðurshróp og hafa ómerkilegir lýðskrumarar þar leikið fullstór hlutverk. Staðreyndin er hins vegar sú, að ekki var hægt að bera á borð að áhrif þeirrar virkjunar á umhverfi séu með einhverjum hætti óljós. Ekki er heldur hægt að halda fram að umhverfismat eftir öðrum formreglum en það sem þegar hefur farið fram, sé líklegt til að leiða nokkuð nýtt í ljós. Það eru sjónhverfingar einar að halda því fram að deilan snúist um kröfuna um það sem kallað er lögformlegt umhverfismat. Allir sem þekkja til vita að deilan getur nú ekki staðið um annað en þekkt áhrif mannvirkisins á náttúruna annars vegar og hins vegar efnahagslegan ávinning af gerð þess. Þeir sem hengja sig í talið um lögformlegt umhverfismat eru að skjóta sér undan ábyrgð á að taka ákvörðun. Aldrei hafa fyllri upplýsingar legið fyrir við ákvarðanatöku af þessu tagi en nú. Þetta vita stjórnarandstæðingarnir auðvitað. Margt annað í þessum málflutningi öllum mætti gera langar og strangar athugasemdir við. Það skal ekki gert að sinni. Hitt þarf að undirstrika að hugsanlegir samningar við Norsk-Hydro eða aðra aðila verða eingöngu gerðir á viðskiptagrundvelli. Þeir fylgja tilteknu umsömdu ferli sem nær fram á mitt næsta ár. Náist viðunandi samningur fyrir báða aðila, hefjast framkvæmdir, annars ekki.

III

Gamla Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu angar allt af sögu innan þykkra veggja. Þetta gamla hús hafa margir gist um lengri eða skemmri tíma og hafa þeir komið úr næsta ólíkum áttum. Sumir komu og fóru glaðir, en aðrir áttu þar sinn versta tíma. Húsið var í upphafi ætlað íslenskum sakamönnum sem fyrir kóngsins makt áttu að taka út refsingu fyrir brot sín sem mörg voru ekki merkileg. Fangelsinu var síðan lokað vegna fjárskorts og húsið, eitt það glæsilegasta í landinu, fékk síðar nýtt og virðulegra hlutverk. Þar sátu landshöfðingjar og síðan íslenskir ráðherrar er þeirra tími kom. Hannes Hafstein skáld og skörungur var fyrstur og síðan hver af öðrum. Ungt fólk hefur stundum í seinni tíð sótt þetta hús heim og ég get ekki neitað því að það kemur á óvart, hvað jafnvel gervilegt og gáfað fólk úr þeim hópi hefur lítið kynnt sér sögu þeirrar aldar sem nú er að líða. Á veggjum hússins hanga myndir af fjölmörgum þeim sem verið hafa í forystu á þessum árum. Það er viðburður ef þetta unga fólk þekkir nokkurn þeirra sem á myndum sjást og eru þó sumir þeirra aðeins nýlega horfnir úr sínum ábyrgðarstörfum. Hef ég þá trú að kennsla og þekking yngri kynslóðarinnar á síðari tíma sögu þjóðarinnar sé í molum.

Þegar málstaðurinn hefur verið hvað tæpastur í stjórnmálaumræðunni, hefur stundum verið hrópað að nú sé svo komið að tvær þjóðir búi í landinu og er þá vísað til efnahags manna. Í vanþróuðum löndum er hægt að tala þannig með réttu, en það er fráleitt á Íslandi, eins og allir í rauninni vita. Fram á síðustu ár hafa þeir verið fáir sem teldust ríkir menn á mælikvarða flestra hinna stærri þjóða. Það sem skiptir sköpum er hitt, að fátækt á borð við það sem þar gerist og áður þekktist hér á landi, er úr sögunni. Hins vegar er þjóðin ekki eins einsleit og hún áður var. Það hlusta ekki allir á sömu fréttirnar, eins og áður gerðist. Menn skipast ekki í fylkingar af sömu hörku og forðum var og menn eru ótrúlega fljótir að gleyma því sem áður þótti skipta höfuðmáli. Þetta hefur orðið til þess að sumir stjórnmálamenn fara óhikað fram með fullyrðingar sem eiga enga stoð og eru stundum augljóslega settar fram gegn betri vitund. Þeir vita sem er að verði þeim ekki fyrirgefið frumhlaupið, þá gleymist hinn vondi málstaður fljótt og verður því ekki dragbítur á pólitískan framgang. Og þeir geti furðu lengi verið í slíkum skollaleik. Segja má að skil séu með þjóðinni, hvað þetta varðar og eldra fólk varara um sig en hið yngra. Sumum er þetta land lífsakkerið sjálft. Saga þjóðarinnar og sameiginleg reynsla hennar er mörgum enn megingrundvöllurinn og tungan, íslenskan, haldreipið sem aldrei má bregðast. Síðan er annar hópur sem fer stækkandi og ótækt að halda því fram að þar fari lakari Íslendingar en í hinum fyrri. Honum er þessi afstaða framandi. Í hans augum er sagan ekki fyrirferðarmikill hluti af nauðsynlegasta vegarnesti til veglegra lífskjara. Landið er flestum fagurt og kært, en þó eru ýmsir sem telja sig ekki hafa neinar skuldbindingar gagnvart því og þykir sumt af því sem áður hefur verið talið séríslensk fyrirbæri og menn verið stoltir af, lítið annað en óhagnýtt hjal. Tungan sé vissulega ágæt svo langt sem hún nái, en þó aðeins svo langt sem hún nái. Að svo miklu leyti sem hún þvælist fyrir mikilvægum markmiðum í lífinu, verði hún að víkja og muni hvort sem er gera það, hvað sem allri viðspyrnu líður. Því sé rétt að stuðla að því að sú breyting verði með snyrtilegum hætti og með sem minnstum skaða. Hér er mikið álitaefni á ferðinni sem óhjákvæmilegt er að taka til skoðunar. Er hugsanlegt að hreintungustefnan, orðasmíði í útlensku stað, sé í besta tilviki þrái og þvermóðska og heimóttarháttur sem dæmdur sé til að mistakast og sé jafnvel til þess fallinn að þrengja að tungunni svo að hún týnist að lokum? "If you can}t beat them, join them", er sagt á heimsmálinu. Er það þá eina hjálpræðið að hætta að smíða nýyrði en koma sér upp forriti sem setur útlend nýyrði frá 1950 eða svo og síðar inn í íslenska beygingafræði og hnýtir á þau íslenskum endingum? Hafa tölvan, netið og þær tækninýjungar allar, með þeim óendanlegu möguleikum og mikla hjálpræði sem í því undri öllu felst, í raun tekið völdin hvað þetta varðar? Lýtur þetta sömu lögmálum og aldamótaákvörðunin sem áðan var nefnd? Þegar er til orðin einhvers konar hraðritunarenska sem fólk verður að tileinka sér og kunna ef það á að geta tekið þátt í þeim ljóshraða samskiptum sem fara fram á netinu. Ég fyrir mitt leyti vil ekki gefast upp baráttulaust að óathuguðu máli þegar jafnmikið er í húfi og hér.

IV

Kosningarnar síðastliðið vor voru sögulegar af mörgum ástæðum. Sjálfstæðisflokkurinn kom mjög vel frá þeim kosningum. Kosningabaráttan var varfærin af hálfu flokksins og leitast var við að koma fram með ábyrgum hætti og kosta sem minnstu til auglýsingaskrums og áróðurs. Kjósendur kunnu augljóslega að meta þá framgöngu. Ríkisstjórnin hélt velli eftir heilt kjörtímabil og endurnýjaði stjórnarsáttmála sinn. Slíkt er sjaldgæfara á Íslandi en menn mundu ætla. Margt í aðdraganda kosninganna gerði niðurstöðu þeirra enn athyglisverðari en ella. Meginhluta kjörtímabilsins á undan fór fram fjölmiðlakynt umræða um svokallaða sameiningu vinstri manna. Var gagnrýnislaust eða gagnrýnislítið tuggið upp hvaðeina sem forystumenn hinnar miklu sameiningar létu frá sér fara og fjölmiðlar brugðust skyldum sínum og virtust forðast að spyrja gagnrýninna spurninga sem lágu þó bersýnilega í lofti. Voru fjölmiðlarnir flestir afar jákvæðir þessu mikla framtaki og sumir beinlínis heillaðir og tók ákafi þeirra stundum fram ákafa viðmælendanna. Var því löngum spáð að þetta nýja afl yrði þegar í stað hið voldugasta í landinu og allt fram til síðustu áramóta voru spekingar að spá því yfir 40% fylgi. Úrslitin urðu mjög á annan veg og eftir rétta átta mánuði sem leiðandi afl í stjórnarandstöðu var fylgið komið niður í 12 til 13%. Og hver er skýringin? Við höfum heyrt þær margar, meðal annars af spekingunum sem spáðu 40% fylgi í fyrra. Skýringar hafa verið þessar helstar; forystuleysi, stefnuleysi, sundurþykkja og hugmyndafátækt. Þetta eru skýringar sem ættu að duga til fylgishruns, að minnsta kosti niður fyrir 10%. En eins og oftast nær er skýringin sennilega mjög einföld. Ég tel að skýringin sé sú að það átti sér ekki stað nein sameining. Kvennalistinn var látinn þegar þarna var komið og gat ekki sameinast öðru en fortíð sinni í gröfinni. Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn voru bersýnilega ekki málefnalega tilbúnir til samninga, en forystumenn þeirra breiddu yfir þann ágreining. Fólk, sem komið hafði til fylgis við Alþýðubandalagið til að styrkja stöðu Ólafs Ragnars innan þess og hefði ella farið beint í Alþýðuflokkinn, fór þangað flest. Þetta var þó afmarkaður hópur og hefði fyrr eða síðar farið þá leið hvað sem sameiningartali leið. Alþýðuflokksfólk margt var ekki tilbúið til að fara í kosningar undir forystu formanns Alþýðubandalagsins, en hún var gerð að talsmanni kosningabandalagsins í einhverri örvæntingartilraun til að breiða yfir þann mikla flótta sem varð úr því liði sem hún átti að mæta með til samstarfsins. Var það undarleg ráðstöfun. Nú er svo komið að Alþýðubandalagið undir nýju nafni mælist með 20% fylgi og Alþýðuflokkurinn, einnig undir nýju nafni, mælist með 12-13% fylgi. Þess háttar tölur höfum við oft áður séð og líklegt er að þær eigi eftir að sveiflast til og frá á næstu misserum á milli þessara flokka. En svo lengi sem forystumenn Samfylkingarinnar svonefndrar eiga í útistöðum við staðreyndir og halda í þá loftbólu að þeir hafi í raun sameinað vinstri menn í einn flokk, þurfa kollegar þeirra í öðrum flokkum engu að kvíða.

V

Stjórnarsamstarfið hefur verið prýðilegt í hinni endurnýjuðu ríkisstjórn og ótrúlega miklu komið í verk á aðeins átta mánuðum. Alþingi hefur tekið af skarið um Fljótsdalsvirkjun með meiri stuðningi en ríkisstjórnin nýtur á þingi. Fjárlög næsta árs hafa verið samþykkt með meiri afgangi en nokkru sinni fyrr, til viðbótar myndarlegum afgangi á þessu ári. Getur fjármálaráðherrann verið stoltur af verki sínu. Skuldir ríkisins minnka hratt. Einkavæðing hefur aldrei fyrr verið jafnumfangsmikil og á þessu tímabili og gríðarlegir fjármunir hafa leystst úr læðingi, sem munu fara í að greiða niður skuldir en auk þess verða settir fjármunir til hliðar til að fara í brýn verkefni þegar dregur úr þenslu. Frá því að markviss einkavæðing hófst hefur ríkið selt eignir fyrir tæplega 25 milljarða króna, þar af á árinu sem er að líða fyrir 16,5 milljarð króna. Þessar tölur einar og sér hafa á tímabilinu sparað ríkissjóði mikla fjármuni í vaxtagreiðslur, bæði í innlendum og þó ekki síst erlendum vöxtum. Er það mikið fagnaðarefni, auk þess sem fjárlagaafgangurinn og þá einkum lánsfjárafgangurinn hefur bætt þar verulegu við. Þannig er ríkisvaldið að fá miklu fleiri krónur til þarfra verkefna án þess að hækka skatta. Þessi ávinningur er varanlegur og mun aukast ár frá ári ef rétt er haldið á spilunum. Þetta er hagnýt hagfræði sem sérhver fyrirvinna á Íslandi skilur. Á næsta ári verður haldið áfram á braut einkavæðingar og litið til þátta eins og Landsbankans, Búnaðarbankans, Íslenska járnblendifélagsins og Íslenskra aðalverktaka. Þá hefur einnig verið unnið að undirbúningi á sölu hlutabréfa í Landssímanum.

VI

Eins og áður sagði, eigum við samleið með ýmsum öðrum þjóðum og gerum okkur glaðan dag í tilefni hinna miklu margnefndu tímamóta. En við höfum einnig okkar sérstöðu vegna þess að svo vill til að saga okkar gefur okkur tvöfalt tilefni til upprifjunar og fagnaðar. Þúsund ára kristni í landinu, aðdragandinn og aðferðin, er einstæð og vert að minnast og er hátíð í þeim tilgangi þegar hafin. Með sama hætti hafa verið skipulagðir á þriðja hundrað viðburða á tæplega sjötíu stöðum í Bandaríkjunum og Kanada á næsta ári til að minnast íslenskra afreka í landafundum og ýta undir og efla tengsl við Íslendinga í Vesturheimi og kynningu á íslenskri menningu þar. Það er síðan skemmtileg tilviljun að Reykjavík, höfuðborg landsins, er ein af níu menningarborgum Evrópu árið 2000 og verða fjölmargir viðburðir hér á borgarinnar vegum af því tilefni. Allt er þetta til þess fallið að gera árið 2000 eftirminnilegra en ella, fyrir Íslendinga heima og heiman og þá aðra sem áhuga hafa á sögu landsins og farsæld þess.

Á árinu 2000 verða viðfangsefnin mörg, sum fyrirsjáanleg, önnur óvænt eins og jafnan er og breytir þá engu hvort tölusetningin á árinu er tilkomumikil eða ekki. Framundan eru kjaraviðræður og vonandi kjarasamningar. Flestum er ljóst að sá mikli árangur sem orðið hefur á undanförnum árum, hefði farið forgörðum ef illa hefði tekist til í samningagerð. Forystumenn þar á bæjum þekkja þetta betur en aðrir svo að þeim er í mun að missa árangurinn ekki niður, eins og svo oft áður hefur gerst. En það er hægara sagt en gert þegar vel gengur að sannfæra menn um að aðhalds sé þörf, ef tryggja eigi að árangurinn haldi áfram að fljóta til fjölskyldnanna í landinu. Samanburðarsálfræðin í samningaviðræðum er eitthvert erfiðasta og ægilegasta fyrirbrigði sem við er að eiga. Skal vissulega ekki lítið úr því gert hér að um sumt hefur ríkinu tekist verr á vinnumarkaði en forráðamönnum atvinnulífsins. Það er áríðandi að búa svo um hnúta nú við þá samningagerð sem framundan er að slíkt verði ekki endurtekið. Ríkið beitti sér fyrir því að lögum er varða samskipti opinberra starfsmanna og ríkisvaldsins yrði breytt í sambærilegt horf og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Vonandi verður þá úr sögunni sá grófi leikur að horfa framhjá gildandi kjarasamningum og taka viðkvæma þætti ríkisreksturs í gíslingu til að knýja í gegn launahækkanir umfram samninga. Verðbólgan hefur farið upp og þótt við vitum að snar þáttur í þeirri breytingu sé utanaðkomandi, vegna mikillar hækkunar á olíuvörum og mikillar erlendrar fjárfestingar, sem nú mun draga úr, þá væri glapræði að viðurkenna ekki að undirliggjandi innlend verðbólga er einnig til. Og kostnaður sem verðbólgan veldur hefur þegar komið við buddur landsmanna. Með verðbólgunni vefjast vextirnir upp og sá kostnaðarauki lendir fyrr eða síðar á almenningi. Í kjarasamningum mun þess vegna reyna mjög á staðfestu og styrk forystumanna á vinnumarkaði. Ekki er á þessari stundu séð, hvort eða með hvaða hætti ríkið mun koma að málinu. Heillavænlegast er að þau afskipti verði sem minnst, en ríkið hefur auðvitað hagsmuni af því, eins og fólkið í landinu, að sú festa sem við höfum búið við raskist ekki og hagvöxturinn skili sér áfram út í þjóðfélagið. Það fer ekkert á milli mála að takist vel við samningagerðina, þá eru yfirgnæfandi líkur til þess að hið langa hagvaxtarskeið og hin mikla kaupmáttaraukning festist í sessi um fyrirsjáanlega framtíð. Það er því að miklu að keppa. Markmiðið er að hinn stórkostlegi árangur sem varð á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar verði einnig einkennandi fyrir fyrsta áratug næstu aldar.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka góða samfylgd á árinu sem var að líða.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum