Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2008 MatvælaráðuneytiðEinar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra 2005-2007, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2007-2009

Ávarp Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á ráðstefnu 25. janúar 2008 um þorsk á Íslandsmiðum

 

Ágætu ráðstefnugestir.

Það hlýtur að teljast til eindæma að fremstu skáld einnar þjóðar sæki sér innblástur í þorskinn, kalli hann bjargvættinn besta, þjóðfrelsishetju og fremstan í andlegri hermanna sveit. Þetta gerði þó Hannes Hafstein, sem var ekki einvörðungu eitt af fremstu skáldum okkar heldur líka fyrsti ráðherrann og áhrifamesti stjórnmálamaður í upphafi 20. aldar. Þetta segir kannski einhverja sögu um skáldið sjálft, en allt sem segja þarf í rauninni um stöðu þorsksins í samfélagi okkar.

Við vitum öll að þorskurinn er okkar mikilvægasti fiskistofn í efnahagslegu tilliti, sem m.a. er ein ástæða þess að við eigum að venjast nokkrum átökum um stöðu og eðli þorskstofnsins, að ekki sé talað um veiðiþol hans og veiðar. Sú ráðstefna sem hér hefur verið blásið til, er hins vegar ekki um fiskveiðistjórnunina, heldur um sjálfan þekkingargrunninn og undirstöður skilnings okkar á skepnunni þorski, sem er ein forsenda þess að okkur takist að höndla veiðistjórnunina vel á komandi árum.

Á síðastliðnu ári tóku stjórnvöld ákvörðun um 30% skerðingu þorskveiðiheimilda svo stofninn ætti möguleika á að styrkjast á komandi árum. Sú ráðstöfun var og er umdeild eins og við öll vitum, en við þá ákvarðanatöku gat ég þess að mikilvægt væri að styrkja þekkingargrunninn í framtíðinni. Í því sambandi hefur ríkisstjórnin varið viðbótarfjármunum til að styrkja undirstöður ákvarðanatökunnar, m.a. hins svokallaða togararalls. Einnig hefur verið reynt með auknum styrkjum til afmarkaðra rannsóknaverkefna að leysa úr læðingi krafta í landinu utan Hafrannsóknastofnunarinnar eða í samstarfi við hana, sem burði hafa til að leggja af mörkum til þorskrannsóknanna.

Sú ráðstefna sem hér er að hefjast er til marks um þá sókn og grósku sem er í þorskrannsóknum hér á landi. Það er sérstakt fagnaðarefni að Hafrannasóknastofnunin hafi efnt til þessara opnu ráðstefnu, þar sem auglýst var eftir þátttakendum og þannig stuðlað að öflugri kynningu á öllu því besta, sem hér er að gerast í landinu á þessu sviði. Á undanförnum árum hafa orðið verulegar framfarir í þekkingu okkar á líffræði þorsksins. Í þeim 22 erindum og 9 veggspjöldum sem hér verða kynnt, er að finna afrakstur yfirgripsmikilla rannsókna sérfræðinga sem hafa verið burðarásar í þorskrannsóknum á liðnum árum, athuganir nokkurra aðila sem haldið hafi uppi gagnrýni á túlkun niðurstaða um ástand þorskstofnsins á undanförnum árum, ásamt afrakstri hóps ungs fólks sem vinnur um þessar mundir að nýjum rannsóknum á þessu sviði og við öll bindum miklar væntingar við.

Þó svo að Hafrannsóknastofnunin sé enn sem fyrr burðarás rannsóknastarfsins í landinu, hafa hér starfsmenn háskólanna og nemendur rækilega hvatt sér hljóðs með sjálfstæðum hætti eða í samstarfi við sérfræðinga Hafrannsóknastofnunarinnar, svo eftir er tekið. Það er mikilvægt að allir þeir sem eru í aðstöðu til að leggja af mörkum til vísindalegra rannsókna á fiskistofnum okkar leggist á eitt, vinni saman og stuðli þannig að því að samfélagið njóti góðs af fjárfestingunni í rannsóknunum með vel undirbyggðri nýtingarstefnu fyrir þorsk á komandi árum.

Mikilvægasta verkefni okkar í íslenskum sjávarútvegi er að standa þann veg að auðlindanýtingu okkar, að afrakstur fiskistofnanna aukist. Sumt er í góðu lagi, en hinar litlu aflaheimildir okkar í þorskinum eru vitaskuld algjörlega óviðunandi. Sá kostur að damla áfram í lægð lítilla aflaheimilda í þorski er því ekki kostur fyrir okkur sem við getum unað við. Við verðum að standa þannig að málum, að á næstu árum sjáum við árangur þess erfiðis sem við leggjum á þjóðina, en umfram allt það fólk sem starfar í sjávarútvegi og sjávarbyggðirnar sem eiga að svo fáu öðru að hverfa.

Það er því gríðarlega mikið í húfi. Það er af þeim ástæðum svo mikilvægt að okkur takist að sjá auknar aflaheimildir í framtíðinni, sem geti staðið undir kröfu okkar um lífskjarasókn. Því það vitum við - og höfum kynnst betur núna en nokkru sinni fyrr - að þrátt fyrir glæstan árangur í ýmsum öðrum efnum, er það sjávarútvegurinn sem er bakfiskurinn. Það slær víðar í bakseglin en í sjávarútveginum og í því umróti sem við göngum í gegnum núna er sjávarútvegurinn kjölfestan sem þjóðarskútan okkar reiðir sig á; jafnvel þó við höfum orðið að sætta okkur við lakari aflaheimildir um hríð.

Góðir ráðstefnugestir.

Vísindalegar rannsóknir verða seint unnar í tómarúmi eða aflokaðar innan landamæra ríkja. Flestar af þeim rannsóknum sem hér eru kynntar, eru unnar í samstarfi íslenskra og erlendra vísindamanna eða með skírskotun til rannsókna í umheiminum. Það breytir ekki því að þorskrannsóknir okkar standast samanburð við það sem gerist á alþjóða vettvangi, enda er okkur nauðsyn að þessi starfsemi sé af hæstu gæðum. Við stuðlum að því m.a. með vel skipulögðum og vönduðum málþingum eins og það sem hér er að hefjast. Forsenda þess að vel takist til er að við eflum rannsóknir og grósku á því sviði, sem hér er til umfjöllunar og sem varpar ljósi á hið mikla viðfangsefni að skilja betur hið flókna gangverk hafrannsókna og fiskveiðiráðgjafarinnar. Sú frjóa umræða sem ég veit að mun fara fram hér í dag og á morgun með þátttöku fjölbreytts hóps vísindamanna mun stuðla að því.

Ég vil sérstaklega þakka þeim erlendu vísindamönnum sem sáu sér fært að koma og miðla af reynslu sinni og þekkingu á þorskrannsóknum. Það er okkur mikils virði. Einnig vil ég þakka öllum aðstandendum ráðstefnunnar fyrir þetta góða framtak og að sjálfsögðu þátttakendum fyrir þeirra framlag. Er ég þess fullviss að málþingið færi okkur öll fram á veginn.

Með þessum orðum segi ég ráðstefnuna setta.

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum