Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. ágúst 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Snúum okkur að framtíðinni; sem fyrst

Birtist í Morgunblaðinu 7. ágúst 2009

Söfnun Landsbankans gamla á innlánum á í útibúum sínum í Bretlandi og Hollandi er, eftir fall bankans, orðið að einu mesta óláni íslandssögunnar. Það mál verður ekki rakið hér, hvorki vítaverð glæframennska bankans né hin mikla ábyrgð, eða öllu heldur ábyrgðarleysi, þáverandi íslenskra stjórnvalda og eftirlitsaðila. Ekki er heldur ástæða til að dvelja við hversu illa íslenskum stjórnvöldum tókst til við að halda á málinu sl. haust, vissulega við erfiðar aðstæður.

Hér verður horft til framtíðar og velt upp tveimur spurningum. Hvaða áhrif mun það hafa á íslenskan þjóðarbúskap og lífskjör að samþykkja fyrirliggjandi icesave samning og ekki síður spurningunni hvaða afleiðingar mun það hafa að gera það ekki.

Að samþykkja

Fyrri spurningunni hafa verið gerð góð skil að undanförnu. Fjármálaráðuneytið í greinargerð stjórnarfrumvarpsins, Seðlabankinn í sínu áliti og nú loks Hagfræðistofnun Háskólans. Meginniðurstaðan er að mati greinarhöfundar skýr. Það mun vissulega muna umtalsvert um icesave byrðarnar á árabilinu 2016-2023. Verði sá reikningur greiddur að fullu á því tímabili er líklegt að til þess renni að meðaltali 2,5 – 3,5% af vergri landsframleiðslu árlega, kaupmáttur gæti tímabundið orðið 1 – 2% lakari en ella vegna veikara gengis auk þess sem óvissan er umtalsverð og framhaldið veltur á hvernig endurreiss íslenskt efnahagslíf gengur næstu árin. Með öðrum orðum þetta verður að sjálfsögðu íþyngjandi reikningur, sem við vildum öll vera laus við, en viðráðanlegur samt. Veruleikinn er einnig sá að þetta er reikningur sem við komumst væntanlega ekki undan eins og æ fleiri gera sér nú af raunsæi grein fyrir. Eigum við annan skárri kost í stöðunni en reyna? Skuldari sem gerir heiðarlega tilraun til að borga en óskar svo eftir endurskoðun ef þörf krefur er í annarri stöðu en sá sem neitar að reyna strax í byrjun.

Að samþykkja ekki

Fáir ef nokkrir ræða lengur málið á þeim forsendum að við getum einfaldlega neitað ábyrgð okkar á málinu, neitað að borga og vísað þeim sem eru ósáttir á héraðsdóm Reykjavíkur. Engu að síður virðist undirliggjandi í máli margra sú hugsun að við getum með einhverjum hætti einhliða ákveðið að hvað marki við öxlum okkar ábyrgð. Af svipuðum toga eru röksemdir þeirra sem nálgast málið út frá því svartsýnishugarfari að vegna þess að hér kunni að verða lítill eða enginn hagvöxtur, gengisþróun geti orðið óhagstæð, óvissa sé með gæði eignasafns Landsbankans gamla, héðan kunni að verða brottflutningur fólks o.s.frv. þá beri að hafna samningnum. Hvort sem við viljum láta framtíðina njóta vafans og trúa á hana eða ekki stendur eftir spurningin; hvaða afleiðingar er það líklegt til að hafa að hafna samningnum eða samþykkja hann aðeins að nafninu til þannig að jafngildi höfnun og málið fari allt aftur í uppnám? Slíku má ekki rugla saman við það sem fjárlaganefnd Alþingis hefur haft til skoðunar að undanförnu að setja af sinni hálfu umgjörð um eða skilmála fyrir heimild sinni til ríkisábyrðar sem að sjálfsögðu er talsvert svigrúm til.

Ætti kannski Seðlabankinn eða Hagfræðistofnun Háskólans líka að meta hverjar verða afleiðingar þess fyrir íslenskan þjóðarbúskap og framtíð landsins, ekki bara eftir sjö til fimmtán ár heldur strax næstu mánuði og ár ef samningnum er hafnað? Gætu afleiðingarnar orðið eftirfarandi?

  • Samstarfsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum siglir í strand og engin frekari lán til að byggja upp gjaldeyrisvaraforðann berast þaðan.
  • Engin gjaldeyrislán berast frá hinum Norðurlöndunum.
  • Erlendu kröfuhafarnir samþykkja ekki að koma að endurreisn Kaupþings og Íslandsbanka.
  • Alþjóðlegar lánastofnanir og erlendir bankar verða áfram lokuð bók og ný lán eða endurfjármögnun eldri lána er ógerleg.
  • Hætta á að neyðarlögunum frá í október verði hnekkt vex á ný.
  • Mikil neikvæð umræða verður um íslendinga á nýjan leik sem óábyrga í viðskiptum og aðila sem hlaupi frá skuldbindingum sýnum og gefnum fyrirheitum.
  • Trúverðugleiki Íslands, sem hefur byrjað að endurheimtast að undanförnu, fer aftur þverrandi.
  • Ef deilan opnast upp aftur kann að verða gripið til aðgerða sem geta reynst íslenskum fyrirtækjum og íslenskum hagsmunum skeinuhættar.
  • Minni líkur á styrkingu gengis, minni líkur á lækkun stýrivaxta, meiri óvissa um þróun lánshæfismats ríkisins og tengdra aðila.
  • Endureisnaráætlun stjórnvalda, stöðugleikasáttmálinn og ýmsir tengdir hlutir lenda í óvissu og bið.
  • Aukin svartsýni grípur um sig, uppsögnum starfsfólks og gjaldþrotum fyrirtækja fer fjölgandi og fráflutningur frá landinu eykst.
  • Tekjur ríkis- og sveitarfélaga dragast meira saman en ella hefði orðið.
  • Eftir langt og kostnaðarsamt óvissuástand myndu aðstæður aftur neyða okkur til samninga sem engin trygging er fyrir að yrðu okkur hagstæðari, o.s.frv.

Gæti þetta allt eða eitthvað af þessu orðið ávísun, a.m.k. tímabundið, á 2-3% meira atvinnuleysi en ella, hindrað fjármögnun nýfjárfestinga og stærri framkvæmda og dregið þar með úr hagvaxtarlíkum á næstu árum um 1-2%, aukið rekstrarvanda ríkis og sveitarfélaga og kallað á meiri niðurskurð og/eða skattahækkanir?

Þetta er sá blákaldi veruleiki sem við okkur blasir – áhættan við að fella fyrirliggjandi samning er gríðarleg og gleymum ekki að þá er málið áfram óleyst. Þessum veruleika verður því miður ekki breytt eins mikið og við vildum hvorki með öflugu kynningarátaki eða öðrum leiðum. Orðspor Íslands er illa skaddað vegna harkalegra aðgera sem við sættum en einnig og ekki síður af völdum okkar eigin ólánsmanna. Málstaður okkar er ekki einhlýtur. Besta landkynningin er og verður fólgin í sýnilegum árangri endurreisnarstarfsins, í góðum fréttum frá Íslandi. Því fyrr sem við horfumst í augu stöðuna eins og hún raunverulega er því fyrr getum við snúið okkar að stóra verkefninu – uppbyggingu norræns velferðarsamfélags til framtíðar og endureisn efnahags- og atvinnulífs. Að öðrum kosti gæti íslenskt samfélag þurft að líða enn meiri kvalir af völdum útrásarinnar og græðgisvæðingarinnar en þegar er orðið.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum