Veikindi og slys

Veikindi, slys og tryggingar ríkisstarfsmanna

Reglur um rétt vegna veikinda og slysa

Um rétt starfsmanns vegna veikinda og slysa fer eftir því sem segir í kjarasamningi eða úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar. Í kjarasamningum er oftast nær kveðið á um rétt vegna veikinda og slysa í 12. kafla en í öðrum tilvikum yfirleitt í 6. kafla.

Efnislega er réttur embættismanna vegna veikinda og slysa almennt hinn sami og annarra starfsmanna samkvæmt nefndum 12. kafla kjarasamninga. Sjá nánar reglur/úrskurð kjaranefndar frá 18. júní 2003 (www.kjaranefnd.is) og úrskurð Kjaradóms frá 7. maí 2001. Í báðum úrskurðunum er vísað til samkomulags fjármálaráðherra o.fl. aðila annars vegar og Bandalags háskólamanna o.fl. aðila hins vegar frá 24. október 2000.

Í 12. kafla, um rétt vegna veikinda og slysa, eru eftirfarandi undirkaflar. Með því að smella á þá er hægt að nálgast ákvæðin í kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkssjóðs og Starfsmannafélags ríkisstofnana:

Kjarasamningar

Kjarasamningsákvæðin í 12. kafla eru samhljóða 2. kafla í samkomulagi BHM, BSRB og KÍ annars vegar við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga hins vegar frá 24. október 2000.

Réttur til launa vegna veikinda og slysa

Réttur til launa vegna veikinda og slysa er venjulega talinn í almanaksdögum en ekki vinnudögum enda er það skýrt tekið fram í samningstexta. Fjöldi daga fer eftir því hversu langan þjónustualdur (ávinnslualdur) viðkomandi hefur. Sjá nánar grein 12.2.5. Réttur til launaðra veikindadaga getur aldrei verið meiri en 360 dagar. Dagafjöldinn er miðaður við hverja 12 mánuði (365) en ekki almanaksárið. Starfsmaður á því rétt á að halda launum í ákveðinn dagafjölda svo lengi sem veikindadagar hans verða ekki fleiri á hverjum 12 mánuðum (365 dögum) talið aftur í tímann. Þannig leggjast öll veikindi á síðustu 12 mánuðum saman og dragast frá veikindarétti við upphaf nýrra veikinda. Hið sama á ávallt við þegar finna þarf út hversu marga veikindadaga starfsmaður á ónýtta. Sem dæmi má nefna að starfsmaður, sem var fjarverandi vegna veikinda í 30 daga fyrr á árinu og veikist síðan aftur, á 30 dögum minni rétt en ella. Sjá nánar grein 12.2.1 í kjarasamningi.

Réttur til launa í veikindum er misjafn eftir því hvort um er að ræða fyrstu viku veikinda eða samfelld veikindi eftir fyrstu viku veikinda. Í fyrstu viku veikinda eru greidd mánaðarlaun ásamt föstum greiðslum. Eftir fyrstu fyrstu viku veikinda er auk þess greitt meðaltal yfirvinnu síðustu 12 mánaða. Sjá nánar greinar 12.2.6 og 12.2.7. Sjá einnig bréf fjármálaráðuneytisins er varðar túlkun og útfærslu kjarasamningsákvæða um veikindarétt dagsett 15. desember 2004 (pdf 68KB).

Vinnuslys og atvinnusjúkdómar

Sérstakur viðbótarréttur er oftast nær vegna vinnuslysa, slysa á beinni leið til og frá vinnu eða atvinnusjúkdóma. Þetta nær þó ekki til þeirra ríkisstarfsmanna sem lengstan veikindarétt hafa (273 daga og 360 daga). Viðbótarrétturinn er eingöngu bundinn við greiðslu dagvinnulauna í allt að þrjá mánuði og kemur til viðbótar ef á þarf að halda þegar dagafjöldinn, sem fylgir veikindaréttinum, hefur verið tæmdur. Sjá nánar grein 12.2.1 í kjarasamningi.

Tilkynningarskylda

Vinnuslys eru tilkynningarskyld til Vinnueftirlits ríkisins og Tryggingastofnunar ríkisins. Tilkynningarskylda vegna vinnuslysa ríkisstarfsmanna hvílir á hlutaðeigandi stofnun. Æskilegt er að stofnanir feli ákveðnum starfsmanni að sinna þessari tilkynningarskyldu þannig að hægt sé að bregðast skjótt við þegar og ef vinnuslys eiga sér stað. Á vefsíðunni vinnueftirlit.is er sérstakt eyðublað fyrir tilkynningar um vinnuslys til Vinnueftirlits ríkisins. Þar er einnig að finna reglur nr. 612/1989, um tilkynningu vinnuslysa. Samkvæmt þeim skal tilkynna alvarleg slys á vinnustað til Vinnueftirlitsins eins fljótt sem verða má og eigi síðar en innan sólarhrings. Eyðublað fyrir tilkynningu um vinnuslys til Tryggingastofnunar ríkisins er hægt að nálgast á vefsíðunni tr.is (Tilkynning um slys - önnur en sjóslys).

Laun í fjarvistum vegna vinnuslyss, slysadagpeningar og tryggingar

Greiða ber starfsmanni laun skv. grein 12.2.7 frá upphafi fjarvista þegar um vinnuslys eða slys á beinni/eðlilegri leið til og frá vinnu er að ræða, sbr. grein 12.2.9. Ef starfsmaður er óvinnufær vegna þess háttar slyss í minnst 10 daga, greiðir Tryggingastofnun ríkisins dagpeninga (slysadagpeninga) frá og með 8. degi eftir að slysið varð. Stofnun/vinnuveitandi á rétt þessum greiðslum fyrir þann tíma sem viðkomandi er á launum en eftir það renna þær til starfsmanns. Sjá nánar 28. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, og upplýsingar á vefsíðunni tr.is um slysatryggingar. Tilkynning um vinnuslysið þarf að hafa borist Tryggingastofnun ríkisins til þess að dagpeningar (slysadagpeningar) verði greiddir.

Auk slysadagpeninga kann að stofnast réttur til annarra bóta slysatrygginga frá Tryggingastofnun ríkisins, svo sem örorku- og dánarbóta. Frekari upplýsingar eru vefsíðunni tr.is.

Starfsmenn er almennt slysatryggðir fyrir dauða eða varanlegri örorku vegna vinnuslysa, þ.e. slysa sem þeir verða fyrir í starfi eða á eðlilegri leið til og frá vinnu o.s.frv. Hjá flestum stéttarfélögum ríkisstarfsmanna en þó ekki öllum gilda um þetta reglur nr. 30/1990, um skilmála slysatryggingar ríkisstarfsmanna skv. kjarasamningum, vegna slysa sem starfsmenn verða fyrir í starfi. Kröfum um greiðslu samkvæmt nefndum reglum ber að beina til embættis ríkislögmanns. Frekari upplýsingar eru á vefsíðunni undir slysatryggingar vegna örorku eða dauða.

Örorka eða andlát vegna vinnuslyss eða annarra ástæðna skapar jafnan rétt hjá hlutaðeigandi lífeyrissjóði. Flestir ríkisstarfsmenn eru í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Frekari upplýsingar er hægt að nálgast á vefsíðunum www.lsr.is og www.ll.is.

Útlagður kostnaður vegna vinnuslyss

Starfsmanni ber að fá greidd þau útgjöld sem hann hefur orðið fyrir vegna vinnuslyss og slysatryggingar almannatrygginga bæta ekki skv. 27. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Sjá nánar grein 12.1.6.

Tilkynning um vinnuslysið þarf að hafa borist Tryggingastofnun ríkisins til þess að hún bæti þann hlut af kostnaði starfsmanns sem henni ber samkvæmt nefndu lagaákvæði. Fylla þarf út eyðublaðið með tilliti til þess hvernig stofnun kýs að haga uppgjöri á útgjöldum starfsmanns vegna vinnuslyss en það er hægt með tvennum hætti. Annars vegar þannig að Tryggingastofnun ríksins greiði starfsmanni það sem henni ber og stofnun greiði honum það sem á vantar útlagðan kostnað. Hins vegar getur stofnun greitt starfsmanni allan útlagðan kostnað og fengið endurgreitt frá Tryggingastofnun ríkisins hennar hluta.

Tryggingastofnun ríkisins bætir útgjöld í þeim tilvikum þegar starfsmaður er óvinnufær vegna vinnuslyss í minnst 10 daga en þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði. Sjá nánar 27. gr. laga nr. 117/1993

Samráðsnefnd um veikindarétt

Sérstök samráðsnefnd skal fjalla um túlkun og útfærslu einstakra ákvæða um veikindarétt. Sjá nánar grein 12.9 eða eftir atvikum 12.10.

Nefndin er skipuð fulltrúum samningsaðila að samkomulagi BHM, BSRB og KÍ annars vegar við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga hins vegar frá 24. október 2000. Fulltrúar í nefndinni eru samtals sex, þ.e. þrír frá hvorri hlið.

Fundargerðir samráðsnefndar

Slysatryggingar vegna örorku eða dauða

Um rétt til slysatrygginga vegna örorku starfsmanns eða dauða fer eftir því sem segir í kjarasamningi eða úrskurðum Kjaradóms og kjaranefndar.

Í kjarasamningum er oftast nær kveðið á um tryggingar í 7. kafla. Þar er yfirleitt vísað til sérstakra reglna fjármálaráðherra að því er varðar skilmála slysatrygginga, þ.e. annars vegar vegna slysa í starfi og hins vegar vegna slysa utan starfs (í frítíma). Samkvæmt þeim er varanleg örorka eða dauði vegna slyss tryggð en með mismunandi hætti eftir því hvort starfsmaður verður fyrir slysi í starfi eða utan starfs.

Almennt gilda sömu reglur einnig um embættismenn. Sjá nánar reglur kjaranefndar frá 18. júní 2003 (www.kjaranefnd.is) og úrskurð Kjaradóms frá 18. júlí 1997.

Ofangreindar reglur taka til flestra hópa ríkisstarfsmanna með þeim skilmálum sem þar er kveðið á um. Þær byggja á læknisfræðilegu mati og eru með fastar fjárhæðir sem breytast samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir að fjárhagslegt tjón eða aldur og aflahæfi hins slasaða hefur ekki áhrif á bótafjárhæðir. Þannig myndu tveir starfsmenn, sem væru metnir með jafnmörg örorkustig, fá jafnháar bætur þótt örorkan gæti kostað annan þeirra starfið en hinn ekki.

Um stöku hópa gilda aðrar reglur, þ.e. þegar aðilar hafa samið á annan veg í kjarasamningi. Helstu dæmin um slíkt eru kjarsamningar ríkisins við bæjarstarfsmannafélög en þó ekki við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Þá hefur ríkið samið við Landssamband lögreglumanna um annars konar tryggingu og tryggingaskilmála og eru sú trygging keypt hjá tryggingafélagi.

Slysatryggingar ríkisstarfsmanna eru að langstærstum hluta í eigin áhættu ríkissjóðs. Uppgjör bóta annast embætti ríkislögmanns, Hverfisgötu 6, 150 Reykjavík.

Útgefið efni um rétt vegna veikinda og slysa

Dreifibréf um veikindi og slys

Erindi á ráðstefnum og greinar úr Fréttabréfi fyrir stjórnendur ríkisstofnana

Bréf frá fjármálaráðuneytinu